Frétt

Rekstur Fljótsdalsstöðvar „framúrskarandi“

24. janúar 2018

Nýverið var gerð úttekt á Fljótsdalsstöð á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP). Úttektin leiddi í ljós að rekstur Fljótsdalsstöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Fljótsdalsstöð þær bestu sem fyrirfinnast.

Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Fljótsdalsstöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 11 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í fjórum flokkum uppfyllir Fljótsdalsstöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum. Tveir flokkar áttu ekki við í þessari úttekt.

Í úttektinni, sem var afar viðamikil, voru teknir til nákvæmrar skoðunar 17 flokkar sem varða rekstur Fljótsdalsstöðvar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Sem dæmi um flokka má nefna samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun.

Úttektarstjórinn, Joerg Hartmann, er staddur hér á landi. Hann kynnir úttektina á Fljótsdalsstöð í höfuðstöðvum Landsvirkjunar á Háaleitisbraut í dag, miðvikudaginn 24. janúar, kl. 15.00 og geta fjölmiðlar rætt við hann.

Um alþjóðlegan matslykil um sjálfbæra nýtingu vatnsafls

Alþjóðlegur matslykill um sjálfbæra nýtingu vatnsafls var formlega tekinn í notkun árið 2011 og byggir á stöðlum í yfir 20 flokkum sem ætlað er að greina sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Beita má lyklinum á mismunandi stigum, við frumhönnun, verkhönnun, byggingu og rekstur aflstöðva.

Matslykillinn var unninn á árunum 2008 til 2010 í samstarfi frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélag- og umhverfismála (Oxfam, The Nature Conversancy, Transparancy International og WWF), stjórnvalda í nokkrum ríkjum (Kína, Þýskalands, Íslands, Noregs og Zambíu), viðskipta- og þróunarbanka (Equator Principle Financial Institutions og Alþjóðabankans) og loks Alþjóða vatnsaflssamtakanna, e. International Hydropower Association (IHA) sem hafði frumkvæði að gerð lykilsins. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda var Guðni Jóhannesson orkumálastjóri. Landsvirkjun hefur í gegnum aðild að IHA stutt vinnu við þróun matslykilsins frá upphafi.

Umsjón og eftirliti með lyklinum er í höndum Hydropower Sustainability Assessment Council (Ráð matslykils um sjálfbærni vatnsafls).  Í ráðinu sitja fulltrúar frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélags- og umhverfismála, stjórnvalda, banka og fjárfesta auk eigenda vatnsaflsvirkjana. Sérstök stjórnunarnefnd gætir samningsins og fylgist með notkun hans. IHA sér um daglegan rekstur lykilsins.

Hægt að gera athugasemdir

Nú tekur við tímabil þar sem hægt er að gera athugasemdir við úttektina til 8. mars nk. og vill Landsvirkjun hvetja almenning og hagaðila til að kynna sér skýrsluna, sem má finna á þessari slóð:

http://www.hydrosustainability.org/IHAHydro4Life/media/ProtocolAssessments/PDF%20Reports/Karahnjukar-Protocol-Assessment--Final-with-Appendices--Reduced-Size.pdf?ext=.pdf

Um Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP matslykilinn:

http://www.hydrosustainability.org/

Fréttasafn Prenta