Römmuð sýn uppsett á Þeistareykjum

02.10.2020Samfélag

Listaverk Jóns Grétars Ólafssonar arkitekts verður vígt við hátíðlega athöfn þegar veðurfar og sóttvarnareglur leyfa fjöldasamkomur á ný.

Mynd: Hreinn Hjartarson.
Mynd: Hreinn Hjartarson.

Römmuð sýn, listaverk Jóns Grétars Ólafssonar arkitekts sem bar sigur úr býtum í hugmyndasamkeppni um listaverk í nágrenni við jarðvarmastöðina að Þeistareykjum, er nú fullgerð og uppsett. Verkið verður vígt við hátíðlega athöfn þegar veðurfar og sóttvarnareglur leyfa fjöldasamkomur á ný.

Landsvirkjun hefur jafnan látið vinna listaverk í tengslum við byggingu helstu mannvirkja sinna og efndi því til fyrrnefndrar samkeppni, sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hafði umsjón með.

Römmuð sýn biðlar til fólks að upplifa umhverfið, hvert með sínum hætti, í gegnum og á milli fjögurra stálramma sem vísa í höfuðáttirnar; norður, austur, suður og vestur. Með því má skynja þann kraft og þá fegurð sem Þeistareykir búa yfir.

Innan rammanna fjögurra er líkan af Íslandi, gert úr náttúrulegum stuðlum. Stuðlarnir eru misháir og taka mið af hæð fjalla og fjallgarða landsins. Upp úr Íslandi rísa járnsúlur sem táknmyndir jarðhitans sem þar býr undir. Listamaðurinn greinir svo frá: „Súlurnar, sem rísa upp úr Íslandi líkt og kvika er sprengir sér leið upp á yfirborð jarðar, eru óður til dropsteina sem finna má í hellum víðsvegar á Íslandi. Sverari súlurnar sýna staðsetningu háhitasvæða á einfaldan og frjálslegan máta, en þær grennri tákna lághitasvæði. Skúlptúrískt og óreglulegt samspil súlnanna gefur lifandi upplifun af líkaninu þar sem sjá má ólíka sjónvinkla milli þeirra.“

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, var formaður dómnefndar í hugmyndasamkeppninni. „Landsvirkjun hefur haft í heiðri þá hefð að láta reisa listaverk við nýjar aflstöðvar, allt frá gerð lágmyndar Sigurjóns Ólafssonar á framhlið stöðvarhússins við Búrfellsstöð, fyrstu aflstöð fyrirtækisins, fyrir rúmum fimmtíu árum,“ segir hann og heldur áfram: „Verk Jóns Grétars, Römmuð sýn, byggir á einfaldri en sterkri hugmynd. Það rammar inn náttúru Þeistareykjasvæðisins og býður áhorfandanum að upplifa umhverfið, sem er stórbrotið og mikilfenglegt á þessum fallega stað. Ekki kæmi á óvart að verkið laðaði að sér fjölda gesta í framtíðinni.“