Frétt

Rúmar 23,7 TWst af raforku hafa verið unnar í Fljótsdalsstöð

30. nóvember 2012
Fljótsdalsstöð - Stöðvarhús

Fljótsdalsstöð Kárahnjúkavirkjunar var formlega gangsett fyrir fimm árum síðan, föstudaginn 30. nóvember 2007, við athöfn sem fór fram samtímis í Fljótsdal og Reykjavík.

Rekstur stöðvarinnar hefur frá upphafi gengið vel og orkuvinnsla verið samkvæmt áætlunum. Uppsett afl stöðvarinnar er 690 MW.

Á þessum fyrstu rekstrarárum hafa vélar stöðvarinnar, sem eru sex talsins,  alls snúist í rúma 42.500 klst að meðaltali hver.  Meðalorkuvinnsla hefur verið 541 MW og alls verið unnar rúmar 23.7 TWst. af raforku á tímabilinu. Orkuvinnsla stöðvarinnar hefur hins vegar hæst farið í 653 MW á þessu tímabili.  

Vatnið er mikilvægasta einstaki þátturinn til orkuvinnslu stöðvarinnar og hefur vatnsborð Hálslóns sveiflast mismikið á þessum fyrstu rekstrarárum. Lónið hefur fyllst á tímabilinu ágúst til október á hverju hausti síðan 2007. Þegar lónið nær yfirfallshæð sem er 625 metrar yfir sjávarmáli rennur vatn úr því á yfirfalli niður í farveg Jökulsár á Dal. Við þetta myndast fossinn Hverfandi en hann er aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Rennsli hans hefur mest farið í kringum 550 m3/s.

Samhliða framkvæmdum og síðar orkuvinnslu í Fljótsdalsstöð hefur Landsvirkjun frá árinu 2004 boðið gesti velkomna í gestastofu sína í Végarði.  Þar er að finna sýningu um framkvæmdina sjálfa sem og fjölbreyttan fróðleik um orkuvinnslu og svæðið allt. Frá upphafi hafa tæplega 80.000 manns heimsótt gestastofuna og kynnt sér starfsemi Landsvirkjunar á svæðinu.

Georg Þór Pálsson hefur verið stöðvarstjóri Fljótsdalsstöðvar frá upphafi og sagði hann við þessi tímamót: „Þetta hafa verið skemmtileg fimm ár og tíminn verið fljótur að líða enda í mörg horn að líta og krefjandi áskoranir, sérstaklega á fyrsta rekstrarárinu. Rekstur stöðvarinnar hefur frá upphafi gengið vel og  verið áætlunum samkvæmt enda samstíga mannskapur hér fyrir austan og í höfuðstöðvunum.“

Fréttasafn Prenta