Frétt

Samningur Landsvirkjunar og Norðuráls felur ekki í sér ríkisaðstoð

24. október 2016

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að endurnýjun samnings Norðuráls við Landsvirkjun um kaup á raforku feli ekki í sér ríkisaðstoð, þar sem hann er gerður á markaðskjörum.

Í frétt ESA um ákvörðunina segir m.a.:

"Landsvirkjun lagði fram yfirgripsmikil gögn sem sýna, að mati ESA, að samningurinn er í samræmi við sambærilega samninga sem önnur raforkufyrirtæki á Norðurlöndunum hafa gengist undir. Endurnýjaður samningur er tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi. Þá er samningurinn arðsamur og skilmálar hans slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður. Því er ekki um að ræða ríkisaðstoð, að mati ESA."

Hinn framlengdi samningur var undirritaður 5. september sl. Hann er til fjögurra ára og hljóðar upp á 161 MW sem er nærri þriðjungur af orkuþörf álversins á Grundartanga. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember árið 2019 og gildir til loka árs 2023. Núgildandi samningur verður áfram í gildi til loka október 2019.

Frétt af framlengingu rafmagnssamnings Landsvirkjunar og Norðuráls.

Fréttasafn Prenta