Frétt

Samstarfssamningur við Vísindavef Háskóla Íslands undirritaður

19. maí 2016
Frá undirritun samstarfssamnings: Magnús Diðrik Baldursson formaður stjórnar Vísindavefsins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Jón Gunnar Þorsteinsson ritstjóri Vísindavefsins.

Vísindavefur Háskóla Íslands og Landsvirkjun hafa undirritað samning til þriggja ára um samstarf á sviði vísindamiðlunar. Samningurinn kveður á um samstarf um vandaða og nútímalega vísindamiðlun til almennings. Sameiginlegt markmið Landsvirkjunar og Vísindavefsins er að fræða ungt fólk og almenning um vísindi. Landsvirkjun var áður einn aðalstyrktaraðili Vísindavefsins frá árinu 2011 til ársins 2015.

Vísindavefur HÍ hefur verið starfræktur frá árinu 2000. Síðan þá hafa þar birst rúmlega 11.000 svör við spurningum almennings. Á hverjum degi senda gestir Vísindavefsins inn fjölmargar nýjar spurningar. Duglegustu spyrjendurnir eru yfirleitt á aldrinum 10-20 ára. Heildarfjöldi spurninga sem á eftir að svara er rúmlega 35.000.

Á meðal spurninga sem almennir lesendur hafa sent Vísindavefnum um orkumál má til dæmis nefna: Hvað er auðlind? Af hverju nýtum við ekki vindorku í öllu þessu brjálaða roki á Íslandi? Hvað notar meðalheimili á Íslandi mörg vött af rafmagni? Hvað er mikill straumur í einni eldingu? Er mögulegt að láta hluti fljúga og ferðast með því einu að nota segul og rafmagn? Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa? Er hægt að framleiða rafmagn með grænmeti eða ávöxtum?

Samstarfssamningar gera Vísindavefnum kleift að sinna sérstaklega tilteknum áhugasviðum lesenda og gesta vefsins. Áhugi almenning á rafmagni, orkumálum og loftslagsbreytingum hefur farið mjög vaxandi. Þegar er búið að svara mörgum spurningum um rafmagn, orku og lofslagsbreytingar en fjölmargar spurningar bíða enn úrlausnar. Margar þeirra snúa sérstaklega að notkun orkunnar á sjálfbæran hátt og tengslum orkunotkunar við loftslagsmál. Samstarfssamningurinn við Landsvirkjun veitir Vísindavefnum tækifæri til að sinna þessum málefnum sérstaklega á næstu misserum.

Vísindavefurinn hefur reynslu af fjölbreyttu starfi sem tengist vísindamiðlun, til dæmis námskeiðahaldi um vísindi fyrir fjölskyldur, bókaútgáfu um vísindi og gerð vísindadagatals, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hægt er að kynna sér þessar spurningar hér að ofan og fleiri á vef vísindavefsins.

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar og vinnur rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðvarma og vindorku. Fyrirtækið vinnur 73% allrar raforku í landinu, er langstærsti vinnsluaðili raforku á Íslandi og eitt af tíu stærstu orkufyrirtækjum í Evrópu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Um leið er fyrirtækið leiðandi í sjálfbærri nýtingu orkugjafa og hefur að markmiði að stuðla að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun.

Fréttasafn Prenta