Frétt

SEforALL fundar í Kröflu

27. júní 2017

Í Kröflustöð stendur nú yfir vinnustofa á vegum SEforALL (Sustainable Energy for All – Endurnýjanleg orka fyrir alla). Um er að ræða samtök á vegum Sameinuðu þjóðanna, en þau urðu til í kjölfar loftslagsfundarins í París í desember 2015 og hafa að markmiði að tryggja aðgengi mannkyns að orku, tvöfalda hlut endurnýjanlegrar orku í orkuvinnslu í heiminum og tvöfalda framfarir í orkunýtni fyrir árið 2030. Framkvæmdastjóri SEforALL er Rachel Kyte, fulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna og sækir hún vinnustofuna ásamt á fjórða tug fundargesta víðsvegar að úr heiminum.

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri og Stella Marta Jónsdóttir forstöðumaður verkefnastofu fóru á ráðstefnu samtakanna í New York í síðasta mánuði og tók Ragna þátt í pallborðsumræðum, þar sem hún kynnti endurnýjanlega orkuvinnslu Íslendinga, orkuskipti síðustu áratuga og þær áskoranir sem við stæðum frammi fyrir í orku- og loftslagsmálum. Niðurstaða ráðstefnunnar var að setja á fót hraðal – verkefni sem ætlað væri að styðja við kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og eflingu kvenna í orkugeiranum í heiminum. Fundurinn, sem Landsvirkjun hýsir í Kröflu í dag og á morgun, er framhald á undirbúningi hraðalsins.

Markmið SEforALL falla vel að þeim áherslum Landsvirkjunar, sem kynntar voru á opnum fundi um samfélagslega ábyrgð í vor. Fyrirtækið mun leggja áherslu á þrjú Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna; verndun jarðarinnar (loftslagsmál), sjálfbæra orku og jafnrétti kynjanna. Vinna SEforALL í hraðlinum, sem stefnt er á að taka muni formlega til starfa í lok árs, mun m.a. miða að því að auka áherslu á kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og valdeflingu kvenna, auk þess að kortleggja hagsmunaaðila og mynda bandalög í þeim tilgangi að stuðla að kerfisbreytingum.

SEforALL hefur einnig að markmiði að bæta aðgengi almennings í þróunarríkjunum að rafmagni og auka þátttöku kvenna í því að finna endurnýjanlegar orkulausnir. Þá er markmiðið að samhæfa vinnu hagsmunaaðila á sviði orku- og jafnréttismála og tryggja fjármögnun frá opinberum aðilum og einkaaðilum til verkefna sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu.

Vefsíða SEforALL.

Fréttasafn Prenta