„Afkoma fyrirtækisins á fyrri hluta ársins var góð, ekki síst miðað við krefjandi ytra umhverfi. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 7,9 milljörðum króna, en árshlutinn var sá fjórði besti frá upphafi. Hreinar skuldir halda áfram að lækka, á sama tíma og bygging nýrra virkjana stendur yfir, sem er til vitnis um traustan grunnrekstur og sjóðsmyndun.
Tekjur lækkuðu í samanburði við sama tímabil árið áður, aðallega vegna lækkandi álverðs. Verð á álmörkuðum mun áfram hafa áhrif á afkomu Landsvirkjunar, en við endursamninga og gerð nýrra samninga höfum við lagt áherslu á að draga úr vægi þeirrar tengingar. Landsvirkjun komst í fjárfestingaflokk hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Standard and Poor‘s í byrjun árs. Það stuðlar að áframhaldandi lágum vaxtakostnaði, sem er mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækisins til framtíðar og gefur fyrirtækinu aukna möguleika á fjármögnun án ríkisábyrgðar.
Við verðum áfram vör við sterka eftirspurn eftir íslenskri endurnýjanlegri orku frá fjölbreyttum iðnaði. Til að auka orkuvinnslu standa nú yfir framkvæmdir við byggingu jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum og stækkun vatnsaflsvirkjunar við Búrfell.“
[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 122