Frétt

Sex mánaða uppgjör Landsvirkjunar

27. ágúst 2015
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Rekstrartekjur námu 215,7 milljónum USD (28,7 ma.kr.) sem er 6,2% hækkun frá sama tímabili árið áður.1
  • EBITDA nam 169,3 milljónum USD (22,5 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 78,5% af tekjum, en var 76,2% á sama tímabili í fyrra.
  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 80,0 milljónum USD (10,6 ma.kr.), en var 54,4 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um 47,1% milli tímabila.
  • Hagnaður tímabilsins var 63,9 milljónir USD (8,5 ma.kr.) en var 34,5 milljónir USD á sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 171,9 milljónir USD (22,9 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok júní 2.018,6 milljónir USD (268,5 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 146,4 milljónum USD (19,5 ma.kr.) sem er 28,2% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Reksturinn gekk almennt vel á fyrri helmingi ársins og sterkt sjóðstreymi gerði okkur kleift að halda áfram að lækka nettó skuldir Landsvirkjunar, en þær lækkuðu um 23 milljarða króna á tímabilinu.

Ýmis jákvæð teikn má lesa úr árshlutareikningnum núna þegar rekstrarárið er hálfnað. Lykilkennitölur styrkjast, eiginfjárhlutfall er 42,2% miðað við 39,9% um áramótin og skuldsetning samstæðunnar mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir lækkar úr 6,6 í 5,8. Á fyrri helmingi ársins urðu þau jákvæðu tíðindi að öllum fyrirvörum var aflétt í raforkusölusamningi við PCC BakkiSilicon hf. Þá hófust framkvæmdir við byggingu Þeistareykjavirkjunar á tímabilinu.

Mikil eftirspurn er eftir raforku á Íslandi, frá fjölbreyttum iðnaði sem er tilbúinn að greiða hærra verð en áður. Landsvirkjun stefnir á að nýta öll þau tækifæri sem fyrirtækið hefur til aukinnar orkuvinnslu, til að mæta þessari áhugaverðu eftirspurn.

Blikur eru þó á lofti í ytra umhverfi þegar litið er til skemmri tíma. Álverð hefur lækkað mikið á síðustu mánuðum, sem hefur neikvæð áhrif á tekjur Landsvirkjunar. Þá hefur köld tíð valdið því að innrennsli í lón Landsvirkjunar hefur verið með minnsta móti í sumar.“

Rekstur

Heildarrekstrartekjur samstæðunnar á fyrstu 6 mánuðum ársins 2015 hækkuðu um 13 m. USD frá sama tímabili árið áður. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam 169 m. USD.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til þegar það metur grunnrekstur fyrirtækisins. Hagnaðurinn nam 80 m. USD janúar til júní árið 2015 en var 54 m. USD á sama tímabili árið áður.

Lágt vaxtastig á heimsmarkaði og lækkun skulda síðustu ára hefur haft jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins.Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,3% að teknu tilliti til ríkisábyrgðar­gjalds en voru 3,5% árið áður. Hagnaður tímabilsins var 64 m. USD en 35 m. USD á sama tímabili árið áður.

Áhersla á lækkun skulda síðustu ár

Landsvirkjun hefur lagt mikla áherslu á að lækka skuldir síðustu ár en nettó skuldir hafa lækkað um 484 m. USD frá árslokum 2011. Nettó skuldir eru vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé fyrirtækisins. Nettó skuldir Landsvirkjunar hafa lækkað um 172 m. USD frá árslokum 2014. 

Eigið fé fyrirtækisins var 1.751 m. USD í lok júní 2015. Eiginfjárhlutfallið hefur hækkað síðustu ár en frá 2011 hefur það hækkað úr tæplega 36% í rúmlega 42%. Heildareignir Landsvirkjunar voru 4.151 m. USD í lok júní 2015.

Sterk sjóðsmyndun og bættar lykilkennitölur

Handbært fé samstæðunnar nam 182 m. USD í lok júní 2015. Breytingin sést á grafinu hér að neðan. Handbært fé frá rekstri samstæðunnar nam 146 m. USD. Fjárfestingar voru 22 m. USD. Handbært fé frá rekstri hefur staðið undir fjárfestingum síðastliðinna ára og er það forsenda bættrar skuldastöðu fyrirtækisins.

Landsvirkjun mun áfram leggja höfuðáherslu á að greiða niður skuldir fyrirtækisins. Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því, líkt og síðustu ár, fara í að lækka skuldir. Þessi áhersla hefur skilað því að nettó skuldir eru nú 5,8 sinnum EBITDA. Markmið Landsvirkjunar er að ná hlutfallinu niður fyrir 5. Takist það verður meira svigrúm til að greiða eigendum arð og endurfjármagna erlendar skuldir til langs tíma á hagstæðum vaxtakjörum. Sjá má þróun lykilkennitala í grafinu fyrir neðan.

Hlutverk og framtíðarsýn

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Framtíðarsýn Landsvirkjunar er að vera framsækið raforkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Við störfum í alþjóðlegu umhverfi og viljum vera meðal þeirra bestu sem vinna og selja orku.

Góður rekstur á fyrri hluta árs

Við upphaf árs 2015 var staðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar góð, en kalt vor seinkaði fyllingu lóna og dró úr líkum á að miðlunarlón fyllist í haust. Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%. Engar alvarlegar truflanir áttu sér stað á tímabilinu.

Horfur í rekstri

Afkoma Landsvirkjunar mun áfram ráðast að miklu leyti af þróun álverðs, vaxta og gjaldmiðla. Tekjur Landsvirkjunar eru að hluta til tengdar verði á áli og breytingar á álverði á heimsmörkuðum hafa því áfram áhrif á framtíðartekjur Landsvirkjunar. Álverð hefur lækkað umtalsvert og mun það hafa neikvæð áhrif á afkomu Landsvirkjunar. Meirihluti lána fyrirtækisins ber breytilega vexti og því er áframhaldandi lágt vaxtastig mikilvægt rekstrinum.

Um Landsvirkjun

Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 og er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar. Fyrirtækið vinnur um ¾ allrar raforku á Íslandi úr endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðvarma og vindi. Um leið er fyrirtækið leiðandi í sjálfbærri nýtingu orkugjafa og stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun.

Um árshlutareikninginn

Árshlutareikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins.

Fréttatilkynning
Árshlutareikningur jan-júní 2015

Fréttasafn Prenta