Frétt

Síðasti stóri íhluturinn í vélar Búðarhálsvirkjunar kominn á sinn stað

14. ágúst 2013
Rótorinn hífður í vélarhús Búðarhálsvirkjunar

Síðasti stóri íhluturinn í vél 2 í Búðarhálsvirkjun, svokallaður rótor, var hífður í vélarhús virkjunarinnar í dag. Vélarhluturinn er jafntframt þyngsti einstaki vélarhlutinn og vel yfir 100 tonn að þyngd. Hífingin gekk vel og er vél 2 langt komin í uppsetningu. Vél 1 verður tilbúin til prófana á næstu dögum.

Um stóran áfanga í verkinu er að ræða en rótorinn gegnir mikilvægu hlutverki í framleiðslu rafmagns. Rótorinn er stórt segulmagnað hjól sem hverfill vélarinnar snýr. Um rótorinn eru koparvafningar en við hreyfingu segulmagnaðs rótorsins fer rafstraumur að renna um vafningana. 

Útlit fyrir að verkið fylgi upphaflegum kostnaðaráætlum eða 26 milljörðum króna

Bygging Búðarhálsvirkjunar hefur gengið vel og er á áætlun. Kostnaðurinn við verkefnið í heild er nálægt 26 milljörðum króna og bendir allt til þess að endanlegur kostnaður verði nálægt upphaflegum kostnaðaráætlunum.  

Vélar stöðvarinnar ásamt tilheyrandi rafbúnaði voru boðnar út á evrópska efnahagssvæðinu. 4 tilboð bárust og var í framhaldi af yfirferð tilboða og skýringarviðræðum gerður verksamningur við lægstbjóðanda, þýska fyrirtækið Voith Hydro.

Kostnaðurinn við vélar og vélbúnað er um 6 milljarðar króna. Vélarnar eru tvær og hver vél, ásamt tilheyrandi rafbúnaði, því á um 3 milljarða.

Fullnýtir fall frá Þórisvatni niður fyrir Sultartanga

Búðarhálsvirkjun er virkjun í Tungnaá og nýtir um 40 metra fall í ánni frá frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Uppsett afl stöðvarinnar verður 95 MW og árleg orkuvinnslugeta er áætluð 585 GWst.

Búðarhálsvirkjun verður rekin samhliða öðrum virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár- Tungnaársvæðinu. Með Búðarhálsvirkjun verður búið að fullnýta fall frá Þórisvatni niður fyrir Sultartanga sem er í samræmi við það hlutverk fyrirtækisins að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Nánari upplýsingar um Búðarhálsvirkjun má finna á heimasíðu Landsvirkjunar á eftirfarandi slóð: http://www.landsvirkjun.is/Fyrirtaekid/Framkvaemdirogutbod/Budarhalsvirkjun

Fréttasafn Prenta