Frétt

Sjötti ársfundur sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi

4. maí 2016
Fundarmenn voru um 40 talsins.
Margar hugmyndir komu fram í hópastarfi.
Björg Björnsdóttir kynnti Sóknaráætlun Austurlands.
María Ósk Kristmundsdóttir stýrði hópastarfi ásamt Jóhönnu Hörpu Árnadóttur.
Ragna Árnadóttir setti ársfundinn.

Vel heppnaður sjötti ársfundur sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaráls og Landsvirkjunar var haldinn á Egilsstöðum í gær. Að þessu sinni var sjónum beint að stöðu og framtíð verkefnisins.

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, setti fundinn. Í máli hennar kom fram að sú mikla söfnun gagna sem farið hefði fram í tengslum við verkefnið væri ómetanleg, en að verkefnið núna væri að nota þessar upplýsingar til að færa samfélagið fram veginn, í anda sjálfbærni.

Árni Óðinsson, fulltrúi Landsvirkjunar í stýrihóp verkefnisins, fór yfir stöðu og sögu sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi. Hann sagði m.a. að stofnun verkefnisins hefði verið huguð og framsækin hugmynd á sínum tíma og kallaði eftir þátttöku sem flestra.

Valur Knútsson, yfirverkefnastjóri Þeistareykjavirkjunar, kynnti sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi og framkvæmdir við Þeistareykjavirkjun.

Björg Björnsdóttir, fulltrúi sveitarstjórnarmála hjá Austurbrú, hélt kynningu á sóknaráætlun Austurlands og kallaði m.a. eftir auknu samstarfi milli þeirra aðila sem söfnuðu gögnum um samfélagið á Austurlandi.

Þá stýrðu María Ósk Kristmundsdóttir frá Alcoa Fjarðaáli og Jóhanna Harpa Árnadóttir hjá Landsvirkjun hópastarfi, þar sem greind var staða verkefnisins.

Að síðustu gerði Hákon Aðalsteinsson, Landsvirkjun, grein fyrir umhverfisvöktun vegna Kárahnjúkavirkjunar og Guðmundur Sveinsson Kröyer, Alcoa Fjarðaáli, fór yfir niðurstöður um flúorlosun og flúor í grasi og beinum.

Nánar má kynna sér ársfundinn, dagskrá og glærur framsögumanna á vef verkefnisins.

Um sjálfbærniverkefnið

Sjálfbærniverkefnið var stofnað af Landsvirkjun og Alcoa Fjarðarál til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álversins á Reyðarfirði á nærumhverfi sitt. Verkefnið gengur út á það að fylgst er með þróun meira en 40 vísa, sem í flestum tilfellum eru tölulegir mælikvarðar. Vísarnir gefa vísbendingu um þróun umhverfis- efnahags- og samfélagsmála á byggingar- og rekstartíma álvers og virkjunar.

Fréttasafn Prenta