Frétt

Skýra þarf skyldur og ábyrgð á orkuöryggi

7. mars 2017
Í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, kom fram að eitt helsta viðfangsefni Íslendingar í orkumálum og nýtingu náttúruauðlinda væri að stuðla að almennri sátt í samfélaginu.

Skýra þarf skyldur opinberra eftirlitsaðila með tilliti til orkuöryggis heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem Copenhagen Economics gerði fyrir Landsvirkjun. Ef verðlag á smásölumarkaði hvetur ekki til nægrar fjárfestingar í orkuinnviðum kann að þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana til að tryggja orkuöryggi þessara aðila. Rými er til meiri hækkana og aukinnar arðsemi vegna samninga við stórnotendur. Sæstreng á ekki að slá út af borðinu, að mati höfunda.

Skýrslan var kynnt á opnum fundi um raforkumarkað á tímamótum sem haldinn var fyrir fullum sal á Hótel Nordica, en fundarmenn voru yfir 300 talsins. Auk skýrsluhöfunda, hagfræðinganna Helge Sigurds Næss-Schmidt og Martins Bo Westh Hansen, héldu Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, erindi.

Tillögur í fimm liðum

Að mati skýrsluhöfunda gæti þjóðhagslegur ávinningur af því að færa gildandi meðalorkuverð hér á landi að alþjóðlegum viðmiðum, svo sem á Nordpool-orkumarkaðnum, numið 13,6 til 59,2 milljörðum króna á ári hverju.

Í kynningu þeirra kom fram að í skýrslunni væru ráðleggingar um úrbætur á fimm sviðum sem stutt gætu íslenskt orkuumhverfi til framtíðar.

Í fyrsta lagi þyrfti að skapa hvata fyrir þær fjárfestingar sem þyrfti til að tryggja orkuöryggi heimila og almennra fyrirtækja. Það væri best gert með því að leyfa orkuverði að hækka, en pólitískt viðfangsefni væri hvort og hvernig komið væri í veg fyrir að þær hækkanir lentu á kaupendum á smásölumarkaði – ýmsar leiðir væru færar til þess, t.a.m. niðurgreiðslur hins opinbera.

Í öðru lagi væri viðfangsefni að fá sannvirði fyrir náttúruauðlindir Íslands. Viðurkenna þyrfti að hærra orkuverð væri eftirsóknarvert fyrir Ísland, en viðhalda þyrfti stöðugleika í regluverki og taka þyrfti til athugunar hvort taka ætti upp gagnsæjan auðlindaskatt á orkuvinnslufyrirtæki.

Í þriðja lagi þyrfti að tryggja heildstætt mat á efnahagslegum og umhverfislegum áhrifum virkjana. Horfa þyrfti í meiri mæli til efnahagslegra sjónarmiða í rammaáætlun.

Í fjórða lagi þyrfti að auka skilvirkni heild- og smásölumarkaðar og gera umbætur á honum. Þeir veltu upp spurningunni um hvort Landsvirkjun væri of stór á markaðinum og komust að þeirri niðurstöðu að í flestum Evrópulöndum væri einn stór aðili með jafnmikla eða meiri markaðshlutdeild en Landsvirkjun. Því væri stærð fyrirtækisins ekki áhyggjuefni. Íhuga þyrfti hins vegar hvort aðskilja þyrfti Landsvirkjun og Landsnet að fullu.

Í fimmta lagi þyrfti að gæta þess að miða allar umbætur við þann möguleika að sæstrengur yrði lagður á næstunni og tengingu yrði komið á við erlenda raforkumarkaði. Tenging íslensks raforkumarkaðar við erlenda væri álitlegur kostur, út frá sjónarmiðum um orkuöryggi og verðmætasköpun.

Almenn sátt nauðsynleg

Í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, kom fram að eitt helsta viðfangsefni Íslendingar í orkumálum og nýtingu náttúruauðlinda væri að stuðla að almennri sátt í samfélaginu. Stoðir þeirrar sáttar fælust annars vegar í því að ganga ekki of nærri náttúrunni og hins vegar að tryggja efnahagslegan og samfélagslegan ávinning af nýtingu auðlindanna.

Ráðherra nefndi kynningu Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi Samorku á dögunum, en þar kom m.a. fram að íslensk heimili greiddu mun lægra hlutfall af ráðstöfunartekjum fyrir orku en dönsk heimili. Því fylgdu hins vegar áskoranir að orkuverð til stórnotenda hefði verið að hækka, sem gæti skapað hvata fyrir orkusala að selja þeim frekar en heimilum og almennum fyrirtækjarekstri. Engin ákvæði í lögum fjallaði um ábyrgð á orkuafhendingu til fyrirtækja og heimila í landinu og tryggja þyrfti hana.

Tvískiptur markaður

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að stóra spurningin sem Íslendingar þyrftu að svara í orkumálum væri hvernig tryggt væri að heimili og almenn fyrirtæki sætu við sama borð og stórnotendur á raforkumarkaði.

Í máli Harðar kom fram að raforkumarkaður á Íslandi skiptist í raun í tvennt. Annars vegar væri markaður með rafmagn til stórnotenda, hins vegar með rafmagn til heimila og almennra fyrirtækja. Fyrrnefndi markaðurinn væri virkur og viðskiptaumhverfið á honum gott. Á slíkum virkum markaði, sem byggi við samkeppni og aðhald frá alþjóðlegum markaði, væri ekki hægt að ofrukka fyrir orkuna, enda sýndu nýlegir endursamningar og sterk eftirspurn að raforkusamningar hér væru samkeppnishæfir. Orkuöryggi á þessum markaði væri tryggt, með langtímasamningum og afhendingaröryggi.

Annað mál væri hins vegar með heildsölu- og smásölumarkaðinn, þar sem selt væri rafmagn til heimila og almenns atvinnulífs. Ekki væri skilgreint í lögum og reglum hver bæri ábyrgð á orkuöryggi í landinu og vaktaði markaðinn, þótt Landsvirkjun hefði gert sitt ýtrasta til að sinna því hlutverki til þessa. Landsvirkjun hefði ekki yfirsýn yfir starfsemi annarra orkufyrirtækja og ekkert hindraði þau í að færa sölu frá smásölumarkaði yfir til stórnotenda. Á sama tíma væri hins vegar þrýstingur frá heimilum og fyrirtækjum á að rafmagnsverði væri haldið niðri.

Í lok fundar var orðið laust fyrir spurningar úr sal og sköpuðust líflegar umræður, sem Stella Marta Jónsdóttir fundarstjóri, forstöðumaður verkefnastofu hjá Landsvirkjun, stýrði.

Nánari upplýsingar um fundinn.

Hér má nálgast skýrslu Copenhagen Economics.

Copenhagen Economics (www.copenhageneconomics.com) er eitt helsta ráðgjafarfyrirtæki Norðurlanda á sviði hagfræði með skrifstofur í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Brussel. Ráðgjafar fyrirtækisins hafa mikla reynslu af ráðgjöf og greiningu vegna orkumála og urðu því fyrir valinu þegar Landsvirkjun leitaði að óháðum ráðgjafa með víðtæka reynslu og þekkingu á því hvernig önnur lönd haga raforkumálum sínum með tilliti til viðskipta, orkuöryggis og opinbers eftirlits.

Fréttasafn Prenta