Frétt

„Slegið í gegn“ í aðrennslisgöngum Búðarhálsvirkjunar

29. nóvember 2012

Síðdegis þriðjudaginn 27. nóvember sl. náðist sá merki áfangi við byggingu Búðarhálsvirkjunar að „slegið var í gegn“ í jarðgangagerðinni þegar síðasta haftið í jarðgöngum var sprengt og göngin opnuðust í gegnum fjallið. Jarðgöngin, aðrennslisgöng virkjunarinnar eru 4 km að lengd og með um 140 m2 þverskurðarflöt. Þau eru grafin frá báðum endum, en þó þannig að vegna hæðar þeirra þarf að grafa þau í tveimur áföngum. Fyrst er efri hluti þeirra grafinn í gegnum hálsinn og síðan neðri hlutinn. Með sprengingunni síðdegis á þriðjudag náði efri hluti ganganna í gegnum Búðarhálsinn þegar gangamenn sem unnu í vesturhluta ganganna sprengdu sig inn í austurhluta þeirra um það bil undir miðjum hálsinum.

Enda þótt Búðarhálsinn líti frekar sakleysislega út á yfirborðinu eru jarðfræðilegar aðstæður hið neðra fjölbreytilegar og krefjandi. Stöðvarhúsið, sem staðsett er í vesturhlíð Búðarhálsins við vesturenda aðrennslisganganna, er grafið í allsprungið líparít sem telst einsdæmi hér á landi. Vesturhluti aðrennslisganganna er auk þess í nokkuð ummynduðu bergi þar sem skiptast á setlög og basaltlög. Austurhluti þeirra er hins vegar í þykku og hörðu basalti. Verktakinn í verkinu er Ístak hf. og hafa gangamenn fyrirtækisins þurft að glíma við þessar ólíku aðstæður í sínu verki en með góðum mannskap og mikilli reynslu hefur þeim tekist það með ágætum. Vinna við neðri hluta ganganna er þegar hafin og gert er ráð fyrir því að gangagerðinni verði að fullu lokið sumarið 2013.

Um Búðarhálsvirkjun
Búðarhálsvirkjun er virkjun í Tungnaá og nýtir um 40 metra fall í ánni frá frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Uppsett afl stöðvarinnar verður 95 MW og árleg orkuvinnslugeta er áætluð 585 GWst.

Megintilhögun Búðarhálsvirkjunar er þannig að tvær jarðvegsstíflur eru byggðar austan við Búðarháls skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár. Önnur stíflan þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Stíflurnar verða báðar um 25 metra háar þar sem þær eru hæstar og samanlögð lengd þeirra um 1400 metrar. Með stíflunum myndast inntakslón Búðarhálsvirkjunar sem nefnt hefur verið Sporðöldulón, og verður stærð þess um 7 km2 að flatarmáli. Aðrennslisgöngin eru um 4 km löng og munu þau leiða vatnið frá Sporðöldulóni til vesturs undir Búðarhálsinn að jöfnunarþró og inntaki í vesturhlíð Búðarhálsins. Tvær fallpípur úr stáli munu flytja vatnið frá inntaki að hverflum stöðvarinnar. Stöðvarhúsið er steypt og að mestu ofanjarðar, grafið inn í vesturhlíð Búðarháls. Vélasamstæðurnar eru tvær og er hvor þeirra tæplega 48 MW.

Að undanförnu hafa um 300 manns verið að störfum á verkstað. Um 250 hafa unnið að byggingarframkvæmdum á vegum Ístaks en aðrir á vegum erlendra verktaka við uppsetningu á raf- og vélbúnaði stöðvarinnar. Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hafa frá upphafi gengið ágætlega og gert er ráð fyrir því að stöðin verði gangsett fyrir árslok 2013. 

Fréttasafn Prenta