Frétt

Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar

10. ágúst 2016

Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar er betri en á sama tíma í fyrra. Veðurfar í sumar hefur verið ágætt með tilliti til fyllingar miðlunarlóna. Hiti í júnímánuði var yfir meðallagi og leysingar einkenndu seinni hluta maí og fyrri hluta júní. Seinni hluti júní var hlýr og úrkomusamur. Nokkuð dró úr innrennsli í fyrrihluta júlímánaðar þar sem norðanáttir voru ríkjandi og kalt á hálendinu. Síðari hluta mánaðarins var hlýrra á öllu landinu og úrkomusamara á  Norður- og Austurlandi og rennslið tók vel við sér.

Allar líkur eru á að Hálslón fyllist í sumar, en þann 8. ágúst stóð það í tæpum 620 m y.s., eða 1.760 Gl, sem er um 85% fylling. Horfur á að Blöndulón eða lón á Þjórsársvæði fyllist í haust eru ekki metnar eins góðar, til þess þyrfti haustið að vera hagstætt. Blöndulón er í rúmum 576 m y.s., eða 75% fyllingu og Þórisvatn í tæpum 575 m y.s. eða 75% fyllingu að rúmmáli. Hágöngulón er fullt.

Myndin hér að ofan sýnir þróun miðlunarforða Landsvirkjunar á yfirstandandi vatnsári samanborið við meðaltal síðustu ára og er fyllingin nú sambærileg.  Þá er einnig sýnd þróun síðasta vatnsárs og sést vel hvað staðan nú er mun betri, um 1.500 GWh, miðað við sama tíma í fyrra. Þess ber að geta að síðasta vatnsár var afbrigðilegt og flokkast í hóp mjög þurra ára.

Fréttasafn Prenta