Staðreyndir um stærstu samningana

26.01.2021Fjármál

Orkuverð til stóriðjunnar er samkeppnishæft við önnur lönd og samdrátt undanfarinna mánuða má rekja til heimsfaraldurs, en ekki raforkuverðs. Fjöllum rétt og af sanngirni um stærstu viðskiptasamninga, sem gerðir eru fyrir hönd landsmanna.

Orkuverð til stóriðjunnar er samkeppnishæft við önnur lönd og samdrátt undanfarinna mánuða má rekja til heimsfaraldurs, en ekki raforkuverðs. Fjöllum rétt og af sanngirni um stærstu viðskiptasamninga, sem gerðir eru fyrir hönd landsmanna.

Fraunhoferskýrslan sýndi afdráttarlaust fram á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, mjög algengt er að raforkuverð í orkusölusamningum sé tengt við neysluverðsvísitölu í Bandaríkjunum og þótt hluti raforkuframleiðslu Landsvirkjunar sé ekki nýttur um tíma þýðir það ekki að sú orka sé óseld og á lausu.

Hér eru aðeins þrjár rangfærslur leiðréttar af mörgum, sem var að finna í grein Ágústs Bjarna Garðarssonar formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar í Fréttablaðinu þriðjudaginn 19. janúar undir yfirskriftinni „Hefur Ísland efni á því að tapa yfir 60 milljörðum í gjaldeyristekjur?“ Í greininni sjálfri var því reyndar ýmist haldið fram að 60 milljarðarnir væru árlegar gjaldeyristekjur eins álvers eða fyrirsjáanlegt gjaldeyristap þjóðarbúsins, en það tvennt verður seint lagt að jöfnu.

Ágúst Bjarni skrifar réttilega að Fraunhofer skýrslan sé um margt ágæt. Þar kom enda í ljós, að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart samanburðarlöndunum, sem voru Noregur, Þýskaland og Kanada. „Fraunhofer fékk við gerð skýrslunnar aðgang að trúnaðarupplýsingum um raforkusamninga orkuframleiðenda og stórnotenda á Íslandi. Langflestir aðilar sem leitað var til veittu aðgang að umbeðnum upplýsingum og allir stórnotendur utan einn veittu upplýsingar um raforkuverð sitt,“ sagði í fréttatilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þegar skýrslan kom út í nóvember sl.

Vandinn ekki vegna raforkuverðs

Það veldur hins vegar vanda við lestur skýrslunnar að eitthvert álveranna hafnaði því að upplýsingar um meðalorkuverð yrðu birtar. Sú upplýsingaleynd leiðir til þess að hver og einn getur túlkað þann hluta skýrslunnar eftir eigin smekk og hagsmunum, hvað sem líður afdráttarlausum meginniðurstöðum hennar um samkeppnishæfni álvera á Íslandi. „Raforkukostnaður álvera á Íslandi er almennt samkeppnishæfur við Kanada og Noreg og lægri en í Þýskalandi,“ eins og ráðuneytið orðaði það í nóvember.

Það blasir við þeim sem til þekkja að meginvandi álveranna undanfarið hefur verið samdráttur í eftirspurn á tímum heimsfaraldurs sem og verðlækkun vegna mikils framboðs frá Kína. Samdráttur hér á landi hefur þó ekki verið meiri en annars staðar, svo sem ætla mætti ef raforkuverð væri sérstakur fjötur um fót.

Algengar vísitölutengingar

Auk þess að fara rangt með niðurstöður Fraunhofer um samkeppnishæfni skrifar Ágúst Bjarni að Landsvirkjun ætlist til að raforkuverð sé tengt verðbólgu i Bandaríkjunum og segir slíkt fátítt. Það er fjarri lagi. Afar algengt er að stórsamningar á borð við raforkusamninga feli í sér svokölluð CPI ákvæði, sem tryggja að verðið uppfærist miðað við breytingar á bandarískri vísitölu. Breska fyrirtækið CRU, sem sérhæfir sig í greiningum á mörkuðum með málma, segir að 32% raforkusamninga til álvera í heiminum utan Kína - álvera sem kaupa raforku af þriðja aðila - séu með verðtryggingu. Það form er algengara en bæði áltenging raforkuverðs og beinar tengingar við verð á raforkumörkuðum.

Loks er rétt að leiðrétta enn einu sinni, því þessum rangfærslum er haldið á lofti víða þessi dægrin, að Landsvirkjun eigi 7,5% raforkuframleiðslu sinnar ónotuð í handraðanum og geti nýtt að vild. Þetta er ekki rétt. Landsvirkjun getur ekki selt þessa „umfram“ orku, því hún er þegar bundin í samningum við stórnotendur. Nýti álver t.d. 85% umsaminnar orku þá getur Landsvirkjun ekki ráðstafað þeim 15% sem út af standa. Þau verða að standa álverinu til boða, kjósi það að starfa á ný á fullum afköstum. Það væri í hæsta máta óeðlilegt ef Landsvirkjun brygði fæti fyrir viðskiptavini sína með því að ráðstafa orkunni þeirra annað, um það hljótum við þó að vera sammála. Þvert á móti höfum við lagt alla áherslu á að styðja við viðskiptavini okkar, til að auðvelda þeim að komast í gegnum erfiða tíma.

Förum rétt með staðreyndir

Í greininni eru fjölmargar aðrar rangfærslur, sem flestar fjalla um einstaka viðskiptavini Landsvirkjunar líkt og álver, kísil- og gagnaver og stendur líklega þeim nær að leiðrétta, hafi þeir hug á.

Það hlýtur að vera formanni bæjarráðs Hafnarfjarðar kappsmál að fjalla rétt um stærstu viðskiptasamninga sem gerðir eru fyrir hönd landsmanna. Við hjá Landsvirkjun erum alltaf reiðubúin að veita aðstoð og upplýsingar. Það er einn liður í því hlutverki okkar að nýta orkuauðlindir þjóðarinnar á ábyrgan hátt svo þær skili þjóðinni arði, Hafnfirðingum jafnt sem öllum öðrum.

Birtist í Fréttablaðinu 26. janúar 2021