Frétt

Startup Energy Reykjavík

18. desember 2013

Á félagsfundi Íslenska jarðvarmaklasans (Iceland Geothermal) í gær var tilkynnt um stofnun nýrrar viðskiptasmiðju fyrir verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu, Startup Energy Reykjavík (SER), www.startupenergyreykjavik.com.

Um Startup Energy Reykjavík

Arion banki, Landsvirkjun, GEORG og Nýsköpunarmiðstöð hafa sammælst um að styðja við sprota í orkutengdum iðnaði. Aðilar verkefnisins eru sammála um að mikil tækifæri felist í aukinni verðmætasköpun í orkutengdum iðnaði og þjónustu. Með það í huga hafa þeir sameinast um að koma á fót viðskiptasmiðju þar sem fjárfest verður í og stutt við valdar viðskiptahugmyndir á þessu sviði.

Skipulag og framkvæmd viðskiptasmiðjunnar verður í höndum Klak Innovit og Iceland Geothermal.

Verkefninu verður hleypt af stokkunum upp úr miðjum mars 2014 og stendur í um 10 vikur en fjárfest verður í allt að 7 fyrirtækjum árið 2014 og annað eins 2015. Auk fjárfestingarinnar fá þátttakendur aðstoð við að koma viðskiptahugmynd sinni eins og langt og mögulegt er á 10 vikum. Á lokadegi SER 2014 verður haldinn fjárfestadagur þar sem fyrirtækin fá tækifæri til að kynna hugmyndar sínar fyrir fjárfestum.

50 manna hópur úr vísinda-, viðskipta- og athafnalífinu  mun leiðbeina teymunum jafnt og þétt á þessu 10 vikna tímabili og mun þessi hópur koma bæði frá þeim fyrirtækjum sem að SER standa sem og annars staðar að úr atvinnulífinu. Teymin munu hafa aðstöðu í Háskólanum í Reykjavík á meðan verkefninu stendur.

Skipulag SER er byggt á góðri reynslu frá Startup Reykjavík sem fór fram árið 2012 og 2013, en í gegnum það verkefni hefur Arion banki nú þegar fjárfest í 20 íslenskum sprotafyrirtækjum. Reynslan hefur sýnt að fyrirkomulagið hentar vel til þess að efla og undirbúa fyrirtæki sem eru að taka sín fyrstu skref í mótun og framkvæmd viðskiptahugmynda.

Mikil gróska í nýsköpunarumhverfinu

Síðustu misseri hefur mikil gróska átt sér stað í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Fjölmargir sprotar úr ýmsum geirum atvinnulífsins hafa sprottið fram, vaxið og dafnað.

Ísland er ríkt af orkuauðlindum og því felast miklir möguleikar í aukinni verðmætasköpun í íslensku samfélagi með því að styðja við nýsköpun á því sviði. Í gegnum verkefni eins og SER geta komið fram fyrirtæki þar sem íslenskt hugvit er nýtt til þróunar á nýjum hugmyndum eða nýrri tækni til vinnslu eða nýtingar orku og ef vel tekst til verða til afurðir til nýtingar á Íslandi sem og víðar.

Kynningarfundur og umsóknarferli

Kynningarfundur um Startup Energy Reykjavík verður haldinn þann 16. janúar 2014 kl 12:00 í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni 19. Opnað verður fyrir umsóknir sama dag á www.startupenergyreykjavik.com

 

Hverjir eiga að sækja um?

Frumkvöðlar og verkefni sem telja að þau hafi upp á að bjóða vörur tengdum orkuiðnaðinum.  Dæmi um starfsemi sem eiga gott erindi í Startup Energy Reykjavík er ýmis konar sérfræðiþjónusta, vélar, búnaður, viðhaldsþjónusta og hugbúnaður. Fyrirtæki á öllum stigum virðiskeðjunnar (framleiðsla, orkubreyting, dreifing, smásala) eiga erindi í SER.

Eftir hverju er leitað?

Varan eða þjónustan skal eiga erindi á alþjóðamarkað með skýran markhóp. Æskilegt er að verkefnið sé vel skalanlegt með tilliti til tekna. Eingöngu er horft á lausnir fyrir orkugeirann og tengdar eða afleiddar greinar.

Hvernig eru verkefnin valin?

Horft verður á hversu markaðsvæn varan eða þjónustan er og metið hvaða erindi hún á fyrir hinn skilgreinda markhóp. Samsetning teymisins á bak við hugmyndina er einnig mikilvæg, þ.e. að nægileg breidd sé í hópnum til þess að hugmyndin geti orðið að veruleika.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

Íslendingar búa yfir mikilli sérþekkingu og sérstöðu í orkuiðnaðinum. Það er mikilvægt að hlúa að umhverfi þar sem lítil fyrirtæki geta skapað verðmæti til framtíðar. Við viljum halda áfram á sömu braut með virkum stuðningi við íslenska frumkvöðla og athafnafólk. Arion banki hefur fjárfest í fyrirtækjum í þekkingariðnaði í gegnum Startup Reykjavík en nú er komið að fyrirtækjum tengdum orkuiðnaði í gegnum Startup Energy Reykjavík.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Við hjá Landsvirkjun erum ánægð með þátttöku okkar og samstarf í SER og bindum vonir við að verkefnið verði til þess að áhugaverðir kostir í orkunýtingu og orkuvinnslu verði þróaðir áfram hér á landi. SER gæti þannig leitt til aukinnar verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag á næstu árum.

Hjalti Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri GEORG:

GEORG klasasamstarfið hefur að leiðarljósi aukna verðmætasköpun í gegnum rannsóknir og þróun.  Það er okkur því mikil ánægja að taka þátt í SER með svona öflugt teymi og við hlökkum til að takast á við verkefnið framundan.  Það eru gríðarleg tækifæri til vaxtar fyrir góðar hugmyndir tengdar jarðvarma og við höfum alla burði til að vera áfram leiðandi á því sviði.

Fréttasafn Prenta