Frétt

Stjórn Landsvirkjunar efndi ráðningarsamning við forstjóra

29. júní 2018
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Vegna svara við fyrirspurnum á Alþingi um laun og launaþróun stjórnenda og stjórna fyrirtækja í eigu ríkisins vill Landsvirkjun koma eftirfarandi á framfæri:

Vegna launa forstjóra:

Stjórn Landsvirkjunar ákvað á síðasta ári að efna ráðningarsamning við forstjóra fyrirtækisins frá árinu 2009 eftir að laun hans voru lækkuð verulega með úrskurði kjararáðs þann 23. febrúar 2010.

Þáverandi stjórn Landsvirkjunar mótmælti þeirri ráðstöfun, enda þýddi hún að fyrirtækinu var ómögulegt að efna ráðningarsamning við forstjórann. Í bréfi þáverandi stjórnarformanns, fyrir hönd stjórnar fyrirtækisins, til forstjóra, sem dagsett er 24. ágúst 2012, lýsti stjórnin því yfir að hún myndi eftir því sem kostur væri leiðrétta laun- og starfskjör forstjóra í samræmi við upphaflegt efni ráðningarsamnings.

Með nýjum lögum um kjararáð, nr. 130/2016, var ákvörðunarvald um laun og starfskjör forstjóra flutt á ný til stjórnar fyrirtækisins.

Til þess að efna ráðningarsamninginn og í samræmi við samþykkt fyrri stjórnar ákvað stjórn Landsvirkjunar á síðasta ári að uppfæra laun forstjóra með hliðsjón af launaþróun og tók breytingin gildi 1. júlí 2017. Leiddi það til um 32% hækkunar á meðallaunum ársins 2017 frá árinu 2016 en launabreytingin er meiri á ársgrundvelli.

Mánaðarlaun forstjóra voru tæp 2,1 milljón króna fyrir breytinguna um mitt ár en urðu tæpar 3,3 milljónir króna eftir breytingu.

Vegna launa stjórnar:

Laun stjórnar Landsvirkjunar eru ekki ákveðin af stjórninni sjálfri heldur tekur aðalfundur ákvörðun um þau. Á aðalfundi Landsvirkjunar í apríl 2017 var samþykkt af hálfu þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, að tillögu starfskjaranefndar stjórnar, að láta stjórnarlaun fylgja almennri launaþróun milli ára. Hækkuðu þau því um 5% á milli ára.

Samanlagðar greiðslur til stjórnarmanna hækkuðu þó meira frá árinu 2016 eins og kemur fram í ársreikningi þar sem stjórnarmenn sitja jafnframt í áhættunefnd, starfskjaranefnd og endurskoðunarnefnd. Undirnefndum stjórnar fjölgaði frá fyrra ári, með stofnun áhættunefndar og starfskjaranefndar, og umfang starfa endurskoðunarnefndar jókst umtalsvert vegna tíðari uppgjöra fyrirtækisins en vegna skráðra skuldabréfa í kauphöll birtir Landsvirkjun nú uppgjör fjórum sinnum á ári í stað tvisvar áður.

Tilgangurinn með nýjum undirnefndum er að styrkja og efla starf stjórnar og bæta stjórnarhætti. Breytingar á greiðslum til stjórnarmanna milli áranna 2016 og 2017 stafa því einkum af aukinni vinnu vegna undirnefnda.

Stjórnarformaður Landsvirkjunar sendi fjármála- og efnahagsráðherra bréf í aprílmánuði síðastliðnum, þar sem ofangreindar skýringar komu fram:

Viðhengi: Bréf formanns stjórnar Landsvirkjunar til fjármálaráðherra

Svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur um launaþróun stjórnenda ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana

Svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar um laun forstjóra og stjórna fyrirtækja í eigu ríkisins

Fréttasafn Prenta