Frétt

Styrkir Orkurannsóknasjóðs nálgast hálfan milljarð

25. febrúar 2016

56 milljónum króna var í dag úthlutað úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar, við hátíðlega athöfn á Nauthóli. Um var að ræða níundu úthlutun sjóðsins til margvíslegra verkefna á sviði umhverfis- og orkumála. Alls nema styrkir sjóðsins frá upphafi 494 milljónum króna.

Úthlutað var úr tveimur flokkum - A flokki, sem eru styrkir til efnilegra nemenda sem áforma eða hafa hafið meistara- eða doktorsnám á sviði umhverfis-  eða orkumála - og B flokki, sem eru skilgreind rannsóknaverkefni á sviði umhverfis- og orkumála, þar með taldar rannsóknir til notkunar vistvænna orkugjafa í samgöngum og iðnaði.

Í flokki A voru að þessu sinni veittir styrkir að heildarupphæð 14,4 milljónir króna. Veittir voru 8 styrkir til doktorsnema að upphæð 1.200 þúsund króna hver og 8 styrkir til meistaranema, að upphæð 600 þúsund krónur hver. Af veittum styrkjum í A-flokki voru 9 til virkjunarmála en 7 til rannsókna á náttúru og umhverfi.

Í flokki B til rannsóknarverkefna voru veittir styrkir að heildarupphæð 41,6 milljónir króna til 16 verkefna. Verkefnin eru mjög fjölbreytt, flest á sviði náttúru- og umhverfisrannsókna og nokkur um nýjungar í tækni.

Um Orkurannsóknasjóð

Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnanna, fyrirtækja og einstaklinga. Sjóðurinn miðar að því að gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri, og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samræmist umhverfisstefnu Landsvirkjunar.

Stjórnarformaður sjóðsins er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur og fyrrum háskólarektor, en stjórn Orkurannsóknasjóðs skipa fjórir fulltrúar háskólasamfélagsins og tveir fulltrúar Landsvirkjunar. Úthlutað er úr sjóðnum árlega en frá stofnun hans árið 2008 hefur sjóðurinn veitt styrki að heildarupphæð 494 milljónum króna.

Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér: 
http://www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/orkurannsoknasjodur

Fréttasafn Prenta