Frétt

„Það veltur allt á gróðrinum“

2. maí 2019

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi var haldinn í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði í gær. Á fundinum, sem var vel sóttur, var fjallað um gróðurvöktun á áhrifasvæðum virkjunar og álvers á Austurlandi og grunnauðlindirnar gróður og jarðveg. Yfirskrift fundarins var „Það veltur allt á gróðrinum“.

Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar var komið á fyrir tólf árum til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Fjarðaáli, stýrði fundinum.

Guðrún Schmidt, fræðslufulltrúi hjá Landsgræðslunni, hélt erindið „Gróður er góður – um grunnauðlindirnar gróður og jarðveg“. Þá fjallaði Guðrún Óskarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, um sambýli gróðurs, beitardýra og iðnaðar á Austurlandi. Erlín Emma Jóhannsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, hélt erindi undir yfirskriftinni „Áhrif veðurfars og landslags á dreifingu og styrk flúors í gróðri“.

Að erindunum loknum voru kynntar áhugaverðar niðurstöður vöktunar og fjallaði Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri álframleiðslu og skautsmiðju hjá Alcoa Fjarðaáli um kerrekstur og umhverfismál. Ásrún Elmarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun, fjallaði um þau verkefni sem fyrirtækið hefur unnið við endurheimt gróðurs á svæðinu.

Fréttasafn Prenta