Frétt

Þriggja mánaða uppgjör Landsvirkjunar

27. maí 2016
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Afkoma á fyrsta fjórðungi ársins 2016 var sú þriðja besta í sögu fyrirtækisins þegar horft er á grunnrekstur (hagnað fyrir óinnleysta fjármagnsliði), þrátt fyrir að afkoman dragist saman m.v. sama tímabil í fyrra. Tekjur lækka sem má einkum rekja til lækkandi álverðs og eilítið minni raforkusölu. Hækkun óinnleystra fjármagnsgjalda, reiknaðir liðir sem fyrirtækið getur haft takmörkuð áhrif á, skýrir að stærstu leyti lækkun hagnaðar eftir skatta. Þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður var sjóðsmyndun góð og hreinar skuldir lækkuðu.    

Helstu atriði árshlutareiknings                                                                 

  • Rekstrartekjur námu 105,5 milljónum USD (12,9 ma.kr.) sem er 5,5% lækkun frá sama tímabili árið áður.
  • EBITDA nam 82,2 milljónum USD (10,0 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 77,9% af tekjum, en var 79,9% á sama tímabili í fyrra.
  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 37,8 milljónum USD (4,6 ma.kr.), en var 52,0 milljónir USD á sama tímabili árið áður og lækkar því um 27,3% milli ára. Lækkun álverðs og gengisáhrif skýra lækkun milli tímabila.
  • Hagnaður tímabilsins var 3,4 milljónir USD (420,2 m.kr.) en var 55,6 milljónir USD á sama tímabili árið áður. Tekjulækkun skýrir hér hluta lækkunar milli tímabila en stærstan þátt eiga óinnleyst fjármagnsgjöld. Óinnleyst fjármagnsgjöld eru reiknaðir liðir sem fyrirtækið getur haft takmörkuð áhrif á.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 10,6 milljónir USD (1,3 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok mars 1.974,8 milljónir USD (240,9 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 68,7 milljónum USD (8,4 ma.kr.) sem er 17,1% lækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Það er ánægjulegt að við erfiðar aðstæður og óvissu á erlendum mörkuðum er fyrsti fjórðungur ársins 2016 sá þriðji besti í sögu fyrirtækisins, þegar litið er á hagnað fyrir óinnleysta fjármagnsliði. Afkoman einkennist af því að tekjur lækkuðu í samanburði við sama tímabil árið áður – þar hefur lágt verð á álmörkuðum mest að segja.

Orkuvinnsla hefur gengið vel í byrjun árs – raforkusala Landsvirkjunar á fyrsta fjórðungi var 3,5 teravattstundir og lækkaði lítillega miðað við sama tímabil í fyrra.

Við höfum lagt mikla áherslu á lækkun hreinna skulda síðustu ár og það er ánægjulegt að segja frá því að sú þróun heldur áfram. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 4,6 milljörðum króna, sem er til marks um sterkan grunnrekstur og öfluga sjóðsmyndun. Á vormánuðum náðist samkomulag við Norðurál um endurnýjun á 161 MW raforkusamningi. Þar var um að ræða afar ánægjulegan áfanga í samstarfi fyrirtækjanna sem á sér 20 ára farsæla sögu.

Annað atriði sem skiptir miklu máli fyrir afkomu fyrirtækisins er áframhaldandi lágt vaxtastig, en í byrjun ársins 2016 bárust þau jákvæðu tíðindi að lánshæfismat Landsvirkjunar var fært í fjárfestingarflokk. Það stuðlar að lægri vaxtakostnaði en ella, sem styður við reksturinn og er gott veganesti í framtíðina.

Þrátt fyrir krefjandi umhverfi á hrávöru- og orkumörkuðum er eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku frá Landsvirkjun mikil, frá fyrirtækjum með margvíslega og fjölbreytta starfsemi. Til að mæta eftirspurninni er fyrirtækið með tvær virkjanir í smíðum: jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum og stækkun Búrfellsvirkjunar.“

Fréttasafn Prenta