Frétt

Þrjú verkefni á Heimsmarkmiðagátt stjórnvalda

2. júlí 2019

Þrjú verkefni Landsvirkjunar eru á Heimsmarkmiðagátt verkefnastjórnar stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem opnuð var í dag á heimsmarkmidin.is.

Um er að ræða þrjú áhersluverkefni fyrirtækisins sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun:

Að virkja jafnréttið í Landsvirkjun

Verkefnið „Að virkja jafnréttið í Landsvirkjun“ tengist heimsmarkmiði 5 - um jafnrétti kynjanna og felst í úttekt á stöðu jafnréttismála í Landsvirkjun. Úttektin nær ekki aðeins til mælanlegra þátta eins og kynjahlutfalla og launa, heldur einnig til menningar, samskipta og vinnuumhverfis. Unnið var með Jafnréttisvísi Capacent. Allt starfsfólkið kom að því að rýna og móta hugmyndir um það hvernig ná mætti árangri og hvað þyrfti til.

Græn skuldabréf Landsvirkjunar

Landsvirkjun gaf í mars 2018 út græn skuldabréf fyrir 200 milljónir Bandaríkjadala, fyrst íslenskra fyrirtækja. Skuldabréfin voru gefin út undir grænum skuldabréfaramma Landsvirkjunar og hefur andvirði þeirra verið ráðstafað til byggingar Þeistareykjastöðvar og Búrfellsstöðvar II. Báðar aflstöðvarnar vinna orku úr endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum. Skuldabréfaútgáfunni var mjög vel tekið og var eftirspurn sjöföld fjárhæðin sem lagt var upp með. Verkefnið tengist markmiðum 7 - um sjálfbæra orku, 8 - um góða atvinnu og hagvöxt, 9 - um nýsköpun og uppbyggingu og 13 - um aðgerðir í loftslagsmálum.

Landsvirkjun kolefnishlutlaus 2030

Landsvirkjun stefnir að kolefnishlutleysi árið 2030. Kolefnisspor Landsvirkjunar nær yfir losun gróðurhúsalofttegunda frá orkuvinnslu fyrirtækisins, eldsneytisnotkun og óbeina losun sem verður til vegna vöru og þjónustu sem Landsvirkjun kaupir. Á síðustu 10 árum hefur bein losun vegna rafmagnsvinnslu fyrirtækisins dregist saman um 26%. Verkefnið tengist markmiðum 7 - um sjálfbæra orku, 9 - um nýsköpun og uppbyggingu, 12 - um ábyrga neyslu og framleiðslu, 13 - um aðgerðir í loftslagsmálum og 15 - um líf á landi.

Fréttasafn Prenta