Frétt

Tímabundin skerðing á skerðanlegri raforku

26. febrúar 2014

Landsvirkjun hefur tilkynnt fjórum viðskiptavinum sínum, sem kaupa orku af fyrirtækinu í heildsölu, um tímabundna en jafnframt samningsbundna skerðingu á skerðanlegri raforku, sem seld er samkvæmt sérstökum samningum um jafnorku til húshitunar. Kaupendurnir fjórir eru HS Orka, Rafveita Reyðarfjarðar, Orkubú Vestfjarða og Orkusalan, sem nota orkuna til þjónustu við kyndistöðvar í nokkrum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni.

Umsamin afhending á raforku samkvæmt þessum samningum er skerðanleg með 72 klst. fyrirvara við ákveðnar aðstæður, t.d. vegna viðhalds og slakrar vatnsstöðu í lónum Landsvirkjunar eins og nú er raunin. Á móti kemur að verð á henni er mun lægra en við kaup á rafmagni með fullum forgangi. Landsvirkjun hefur haldið heildsöluviðskiptavinum sínum upplýstum um vatnsstöðuna undanfarnar vikur og munu þeir nú gera ráðstafanir til að mæta þessum samningsbundnu skerðingunum.

Landsvirkjun gætir jafnræðis milli þeirra viðskiptavina sinna sem kaupa skerðanlega raforku og hefur því verið ákveðið að virkja skerðingarákvæði vegna vatnsstöðunnar. Rúmur mánuður er síðan Landsvirkjun tilkynnti stórnotendum um skerðingu á afgangsorku ef ástand í vatnsbúskapnum færi ekki batnandi en slíkt þarf að gera með a.m.k. mánaðar fyrirvara samkvæmt samningum við stóriðjufyrirtæki. Sjá frétt

Raforkuvinnsla Landsvirkjunar grundvallast á úrkomu á landinu og þar með veðurfari sem er breytilegt frá ári til árs. Landsvirkjun nýtir tilfallandi vatn eins vel og kostur er en gerir að öðru leyti ráð fyrir því í rafmagnssamningum að komið geti til skerðinga ef veðurfar er óhagstætt í einstökum árum. Skerðingarnar nú eru því allar í samræmi við samninga við orkukaupendur.

Horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar eru lakari en mörg undanfarin ár vegna úrkomuleysis og kulda á hálendinu síðastliðið vor og sumar. Innrennsli í lónin var talsvert undir meðallagi og ekki náðist að fylla þau öll í haust. Veturinn nú hefur verið óvenjulega þurr og kaldur og innrennsli lítið. Ríkjandi norðaustanáttir og kuldi á hálendinu síðustu vikur hafa ekki bætt stöðuna.

Landsvirkjun fylgist grannt með þróun í vatnsbúskapnum og mun fyrirtækið bregðast við eftir atvikum og endurmeta stöðuna ef ástæða þykir til.

Á vefsíðu Landsvirkjunar er hægt fylgjast með vatnshæð Blöndulóns, Þórisvatns og Hálslóns frá degi til dags: www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Voktun

Fréttasafn Prenta