Frétt

Tíu ár frá gangsetningu Fljótsdalsstöðvar

30. nóvember 2017

Í dag eru tíu ár síðan Fljótsdalsstöð var gangsett, en hún var ræst við hátíðlega athöfn þann 30. nóvember 2007. Vegna veðurs fór gangsetningarathöfnin fram í gegnum fjarfundabúnað á Hótel Nordica, samhliða athöfn í Fljótsdalsstöð. Bygging Kárahnjúkavirkjunar er ein stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Framkvæmdir hófust árið 2003 og liðu því fjögur ár áður en Fljótsdalsstöð var komin í rekstur. Uppsett afl stöðvarinnar er 690 megavött og getur hún unnið yfir 5.000 gígavattstundir (GWst) á ári.

Rekstur Fljótsdalsstöðvar hefur staðið undir væntingum og gott betur. Þegar hún var reist var áætlað að hún ynni um 4.500 GWst á ári, en nú er matið á orkuvinnslunni sem fyrr segir um 5.000 GWst á ári, en það er um 11% aukning, sem stafar af auknu rennsli í miðlunarlónið, Hálslón. Á þessum tíu árum hafa alls verið unnar um 49.100 GWst, en þegar Hálslón er í hæstu stöðu, 625 m y.s., er orkan sem geymd er í því 2.800 GWst, sem nemur meira en hálfs árs vinnslu stöðvarinnar.  Lónið hefur fyllst á haustin öll ár frá því að rekstur hófst og myndast þá fossinn Hverfandi, þegar vatn streymir á yfirfalli.

Verið er að ljúka úttekt á Fljótsdalsstöð á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP), sem verður kynnt síðar, en á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Fljótsdalsstöð þær bestu sem fyrirfinnast.

Sjálfbærniverkefnið á Austurlandi

Í tengslum við framkvæmdina stofnuðu Landsvirkjun og Alcoa til Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi, til að fylgjast með áhrifum framkvæmdanna á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Verkefnið gengur út á að fylgst er með þróun vísa sem í flestum tilfellum eru tölulegir mælikvarðar og gefa vísbendingu um þróun umhverfismála, efnahags og samfélags á byggingar- og rekstrartíma álvers og virkjunar. Miklu magni upplýsinga hefur verið safnað og er haldinn ársfundur í nærsamfélaginu á hverju ári, þar sem helstu niðurstöður frá undangengnu ári eru kynntar og skilgreindar breytingar á verkefninu og það rætt. Vefur verkefnisins er á slóðinni sjalfbaerni.is.

Skilyrði virkjunarleyfis hafa verið uppfyllt

Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar voru mikil, en vel innan þeirra marka sem búist var við. Í vor kom út skýrsla sem tók saman hvernig Landsvirkjun hefði tekist á tíu ára rekstrartíma að uppfylla skilyrði fyrir virkjunarleyfi Kárahnjúkavirkjunar. Niðurstaðan varð að fyrirtækið hefði uppfyllt þau að fullu eða eftir því sem mögulegt hefði verið.

Skilyrðin voru aðallega þrenns konar; í fyrsta lagi skilyrði sem umhverfisráðherra sett í tengslum við úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum, í öðru lagi fyrirheit Landsvirkjunar í matsskýrslu og kæru vegna úrskurða Skipulagsstofnunar og í þriðja lagi viðbótarskilyrði í virkjunarleyfi. Skilyrðunum má skipta í rannsóknir og vöktun annars vegar og aðgerðir til að vinna gegn ætluðum umhverfisáhrifum hins vegar.

Fréttasafn Prenta