Frétt

Um 400 gestir á ársfundi Landsvirkjunar

21. maí 2014

Um 400 gestir mættu á ársfund Landsvirkjunar sem var haldinn í Hörpu 20. maí 2014 kl. 15. Yfirskrift fundarins var „Verðmæti í vatnsafli.“ Yfir 100 horfðu á beina útsendingu á landsvirkjun.is. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, stýrði fundi og umræðum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hélt upphafsávarp og þakkaði stjórnendum og starfsfólki Landsvirkjunar fyrir vel unnið starf. Ráðherra kom víða við í ræðu sinni og minntist á góðan árangur stjórnenda Landsvirkjunar og ábyrg markmið um að bæta skuldastöðu fyrirtækisins. Áhersla Landsvirkjunar á að starfa í sátt við umhverfi og samfélag væri til fyrirmyndar og til framtíðar væri bæði mikilvægt og eftirsóknarvert að þjónusta enn fjölbreyttari starfsemi og dreifa með því áhættunni í rekstrinum. Ráðherra ræddi einnig um sæstreng, sem gæti verið liður í frekari uppbyggingu landsins og mikilvægur framtíðarviðskiptavinur Landsvirkjunar og því væri mikilvægt og rétt að hafa þann kost með á teikniborðinu.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður hélt ávarp og minntist á að Landsvirkjun hefur haft veruleg áhrif til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag í um hálfa öld. „Engum getur dulist að frumkvöðlarnir hafa verið stórhuga og vandað til verka. Lánist Íslendingum að nýta auðlindir landsins af skynsemi, er framtíðin björt,“ sagði Jónas Þór.

Að loknum ávörpum héldu forstjóri og stjórnendur Landsvirkjunar kynningar, sem má nálgast á vef Landsvirkjunar:

  • Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: Samkeppnishæfni - arðsemi - sátt
  • Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs: Áskoranir og tækifæri í lokuðu vatnsaflskerfi
  • Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs: Áhersla á lækkun skulda - rekstrarniðurstöður 2013

Miðlarnir Facebook og Twitter voru einnig nýttir til að miðla beint frá viðburðinum. Sjá:twitter.com/landsvirkjun

Hægt er að horfa á upptöku af ársfundinum, nálgast ræður og glærukynningar hér

 

Fréttasafn Prenta