Frétt

Um Icelandic Power Insurance - trygginga- og dótturfélag Landsvirkjunar

14. apríl 2016
Úr ársskýrslu Landsvirkjunar 2003.

Upplýsingar vegna frétta um tryggingafélag Landsvirkjunar sem skráð er á Bermuda:

Landsvirkjun á félagið Icelandic Power Insurance Ltd. Félagið er tryggingafélag og var stofnað árið 2003 á breska sjálfstjórnarsvæðinu Bermúda. Icelandic Power Insurance var stofnað í þeim tilgangi að lækka tryggingaiðgjöld vegna stærri eigna Landsvirkjunar en ekki í þeim tilgangi að fela eignarhald eða komast hjá skattgreiðslum.

Ástæða þess að félagið var stofnað á Bermúda er sú að þar er að finna einn stærsta markað á sviði endurtrygginga í heiminum með stórum og öflugum alþjóðlegum vátryggingarfélögum. Félagið starfar í umsjón AON sem er eitt stærsta áhættustýringar- og tryggingafélag heims.

Getið er um stofnun þess í ársskýrslu 2003 og öllum ársreikningum síðan. Fjármálaeftirlitið, Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytið hafa verið upplýst um starfsemi félagsins og hafa ekki verið gerðar athugasemdir af þeirra hálfu við starfsemina.

Ítarlegri upplýsingar:

Landsvirkjun (LV) á félagið Icelandic Power Insurance Ltd. (IPI). Félagið er tryggingafélag, 100% í eigu Landsvirkjunar, stofnað árið 2003 á breska sjálfstjórnarsvæðinu Bermúda. Félagið var stofnað í þeim tilgangi að lækka tryggingaiðgjöld vegna stærri eigna og áhættu í rekstri Landsvirkjunar, s.s. aflstöðva og framkvæmda á verktíma. Slíkar tryggingar höfðu hækkað mikið hjá alþjóðlegum tryggingafélögum eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum árið 2001.

Stofnun IPI var gerð af hálfu LV í rekstrarlegum tilgangi en ekki í þeim tilgangi að fela eignarhald eða komast hjá skattgreiðslum. Stofnun þess er getið í ársskýrslu Landsvirkjunar árið 2003, sjá bls. 22: www.landsvirkjun.is/Media/LVArsskyrsla_2003.pdf

Ástæða þess að IPI var stofnað á Bermúda er sú að þar er að finna einn stærsta markað á sviði endurtrygginga í heiminum. Þar hefur IPI aðgang að stórum og öflugum alþjóðlegum vátryggingarfélögum til endurtrygginga en félagið starfar í umsjón AON sem er eitt stærsta áhættustýringar- og tryggingafélag heims. Þá má nefna að landið hefur langa sögu tengt tryggingum og leggur mikið upp úr öflugri löggjöf tengdri rekstri tryggingafélaga. Í dag hefur Evrópusambandið gefið út að Bermúda sé eitt af örfáum ríkjum heims, utan sambandsins, þar sem regluverk tengt tryggingafélögum samræmist Solvency II tilskipun ESB. IPI starfar með heimild og undir eftirliti þarlends eftirlitsaðila, Bermuda Monetary Authority.

Upplýsingar um félagið hafa frá upphafi komið fram í ársreikningum LV sem eru opinberir. Fjármálaeftirlitið á Íslandi hefur verið upplýst um starfsemi IPI. Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytið hafa einnig verið upplýst um starfsemi IPI og hafa ekki verið gerðar athugasemdir af þeirra hálfu við starfsemina.

 

Helstu rök fyrir stofnun eigin tryggingafélags:

  • Hagstæðari iðgjöld á alþjóðlegum tryggingamarkaði.
  • Mikill kostnaður sparast þar sem tryggingafélagið gefur út eigin vátryggingaskírteini og sér um tryggingastarfsemina svo og tjónakröfur.
  • Tryggingarfélagið hefur beinan aðgang að endurtryggjendum og fær þar með hluta af iðgjöldum og umboðslaunum sem annars hefðu runnið til umboðsmanna.
  • Markmið er að ávinningur af rekstri IPI verði greiddur til Landsvirkjunar í formi arðs sem er síðan skattlagður á Íslandi.

Helstu ástæður fyrir vali á AON sem þjónustuaðila og staðarvali á Bermuda voru eftirfarandi:

  • AON er eitt stærsta félag heims á sviði áhættustýringar og trygginga.
  • Sérhæfing AON í rekstri “captive“ félaga er mest á Bermuda.
  • Staðsetning á Bermuda valin þar sem þjónusta við rekstur IPI er til staðar.
  • Á Bermuda er einn stærsti endurtryggingamarkaður heims.
  • Laga- og reglugerðarumhverfi á Bermuda tekur mið af slíkri starfsemi.

Nánar um aðdraganda að stofnun IPI:

Landsvirkjun hefur séð sjálf um kaup á tryggingum á mannvirkjum LV eftir að Viðlagasjóður óskaði eftir því á sínum tíma. Áður en LV stofnaði eigið tryggingafélag (2003) voru vátryggingarskírteini gefin út af íslenskum tryggingafélögum gegn umboðslaunum. Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum árið 2001 hækkuðu tryggingaiðgjöld í heiminum umtalsvert um leið og aðgangur að tryggingum þrengdist verulega. LV tók því tryggingamál sín til skoðunar í þeim tilgangi að ná hagstæðari samningnum við endurtryggjendur. Niðurstaðan var sú að hagkvæmast væri að stofna eigið tryggingafélag til að annast tiltekna þætti tryggingastarfseminnar.

Slík eigin tryggingafélög, svokölluð “captive“ félög, eru algeng erlendis hjá fyrirtækjum sem þurfa að tryggja miklar eignir. Eru þau oftast rekin með þjónustusamningi við sérhæfða aðila sem annast daglegan rekstur og samskipti við endurtryggjendur fyrir hönd tryggingafélagsins. Slík þjónustufyrirtæki eru víða erlendis, t.d. í Bandaríkjunum (einkum í Delaware) og á Bermuda. Á Bermuda hafa ýmis fyrirtæki sérhæft sig í slíkri tryggingastarfsemi. LV valdi eftir ítarlega skoðun fyrirtækið AON á Bermuda, en það fyrirtæki er annað af tveimur stærstu aðilum í heiminum sem sérhæfa sig í slíkri þjónustu. AON er með starfsemi sem þjónustar “captive“ tryggingafélög í mörgum löndum en stærstu skrifstofur þess eru á Bermuda.

Nánar um IPI:

IPI tryggir einungis fyrir Landsvirkjun og hefur umsjón með svokölluðum “all–risk“ tryggingum LV, en þær tryggingar eru fyrir aflstöðvar í rekstri og eru til eins árs í senn. IPI hefur jafnframt umsjón með tryggingum vegna bygginga virkjana, svo sem Búðarhálsvirkjunar síðast og nú Þeistareykjavirkjunar og Búrfellsvirkjunar II og tengdra mannvirkja (svonefndar Contractors All Risk tryggingar). Fasteignir Landsvirkjunar, eins og Háaleitisbraut 68, tæki og búnaður eru hins vegar tryggð hjá íslenskum tryggingafélögum.

Rekstur IPI hefur frá stofnun gengið vel. LV lagði upphaflega fram eina milljón Bandaríkjadala sem stofnfé. Eigið fé félagsins nú er umtalsvert. Lög og reglur á Bermúda gera kröfur um lágmarks eigið fé í félaginu sem tekur mið af þeim ábyrgðum og skuldbindingum sem fyrirtækið tekst á við á hverjum tíma.

Af hagnaði og arðgreiðslum hefur verið greiddur skattur samkvæmt gildandi íslenskum lögum á hverjum tíma. Enginn skattur er greiddur af arðinum á Bermuda. Árlegar greiðslur til AON eru fyrirfram ákveðnar og fastar.

Stjórn félagsins er fjögurra manna, og hefur hún verið skipuð tveimur starfsmönnum LV, framkvæmdastjóra AON og lögfræðingi sem þjónustar félagið. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs er stjórnarformaður. Stjórnarmenn fá ekki greidd stjórnarlaun. Ákvörðunarvaldið í málefnum félagsins er hjá LV sem eiganda félagsins. Endurskoðendur LV sjá um endurskoðun IPI.

Fréttasafn Prenta