Frétt

Umhverfisskýrsla 2015 komin út

7. júní 2016

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar fyrir árið 2015 er nú komin út. Að þessu sinni var lögð sérstök áhersla á loftslagsmál og þá endurnýjanlegu orkugjafa sem Landsvirkjun nýtir.

Á meðal þess helsta sem kemur fram í skýrslunni:

  • Umhverfisstefna Landsvirkjunar var endurskoðuð árið 2015. Skilgreind voru stefnumið og leiðir til að uppfylla markmið fyrirtækisins í umhverfismálum sem og markmið fyrirtækisins um að ná kolefnishlutleysi í starfsemi sinni eigi síðar en árið 2030.
  • Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Landsvirkjunar minnkaði um 3,7% frá árinu 2014. Kolefnisspor fyrirtækisins (árleg losun gróðurhúsalofttegunda að frádreginni áætlaðri kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun) árið 2015 var 28.212 tonn CO2-ígilda.
  • Heildarnotkun dísilolíu á farartæki fyrirtækisins dróst saman um 11% frá árinu áður. Það má meðal annars rekja til aukinnar notkunar lífdísils í stað hefðbundinnar dísilolíu.
  • Framkvæmdir við uppbyggingu Þeistareykjavirkjunar hófust á árinu. Umhverfisvöktun við jarðvarmastöðvar á Norðausturlandi hafa verið stundaðar árum saman og fór reglubundin vöktun umhverfisþátta í nágrenni Þeistareykja af stað áður en framkvæmdir hófust.
  • Á síðasta ári voru 5.099 þúsund tonn af gufu notuð til að vinna 497 GWst af raforku á Mývatnssvæðinu. Sem fyrr mældist styrkur mengandi efna í grunnvatnssýnum við Mývatn undir umhverfismörkum en sýnin eru tekin árlega við Vogaflóa og Langavog.
  • Á loftslagsráðstefnunni í París skrifaði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undir yfirlýsinguna Caring for Climate. Í kjölfar þess skráði Landsvirkjun markmið sín í loftslagsmálum hjá NAZCA (Non-State Actor Zone for Climate Action) og má lesa nánar um þau í kaflanum um loftslagsmarkmið Landsvirkjunar.

Þetta er í þriðja sinn umhverfisskýrsla fyrirtækisins er eingöngu gefin út á rafrænu formi og hefur það mælst vel fyrir. Við hvetjum alla til að kynna sér skýrsluna í heild sinni sem hægt er að nálgast hér.

Fréttasafn Prenta