Frétt

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar komin út

4. maí 2015

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar 2014 er komin út. Þetta er annað árið í röð sem ársskýrsla og umhverfisskýrsla Landsvirkjunar eru eingöngu gefnar út á rafrænu formi. Markmið okkar er að auðvelda almenningi og hagsmunaaðilum að kynna sér stefnu og starfsemi Landsvirkjunar, orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, rannsóknir á auðlindum og umhverfi og umhverfisbókhald þessa mikilvæga fyrirtækis í eigu íslensku þjóðarinnar.

Hægt er að kynna sér efni umhverfisskýrslunnar á slóðinni www.landsvirkjun.is/umhverfisskyrsla2014

Umhverfisskýrslan er gefin út fyrir opinn ársfund á 50. afmælisári Landsvirkjunar, sem verður haldinn í Hörpu 5. maí nk.

 Í umhverfisskýrslu 2014 kemur meðal annars fram:

  • Jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum er næsta verkefni Landsvirkjunar og taka framkvæmdir mið af sérstöðu svæðisins. Mikil áhersla er lögð á að vinna í sátt við umhverfi og samfélag, en á áhrifasvæði virkjunar hefur ríflega 3.000 kílóum af fræjum hefur verið sáð í beitalönd og vegfláa og yfir 37.000 trjáplöntum verið plantað.

  • Djúplosun skiljuvatns frá Kröflustöð hefur aukist verulega milli ára eða frá 3.067 þúsund tonn árið 2013 í 4.296 þúsund tonn árið 2014. Djúplosun er nú orðin 90% af þess skiljuvatns sem fellur til við orkuvinnsluna. Markmiðið með niðurdælingu er að halda uppi þrýstingi í jarðhitageyminum og draga úr umhverfisáhrifum.
     
  • Á árinu var unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrir virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar og Búrfellslundar (vindlundar). Jafnframt var óskað eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þyrfti matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar.

  • Sniðmælingar á Hálslóni sýna að rúmmál lónsins hefur aukist um 110 Gl frá því fyrra mat var gert árið 2001. Breytinguna má aðallega rekja til þess að Brúarjökull hefur hopað um 4,5 km frá árinu 2000.

  • Landsvirkjun skoðar nú að reisa vindlundi á Þjórsársvæðinu. Rannsóknir á áhrifum vindmyllanna hafa að mestu snúið að fuglalífi og snúa einkum að því að kortleggja farleiðir fugla um Hafið með radartækni ásamt því að gera grein fyrir útbreiðslu varpfugla á svæðinu. Alls sáust 46 tegundir fugla á Hafinu milli 26. mars og 21. október 2014 en aðeins hluti þeirra var talin verpa á svæðinu.

  • Landsvirkjun setti sér samgöngustefnu á árinu en markmið hennar er að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi fyrirtækisins, bæta fyrir óhjákvæmilega losun með kolefnisbindingu í gróðri og vera virkur þátttakandi í orkuskiptaáætlun fyrir Ísland.

Rafrænum útgáfum vel tekið

Ársskýrslur og umhverfisskýrslur Landsvirkjunar voru í fyrsta sinn eingöngu gefnar út á rafrænu formi árið 2014. Sú nýbreytni gafst vel og hafa yfir 6.500 lesendur heimsótt ársskýrsluna og voru síðuflettingar yfir 41 þúsund talsins en áður var hún aðeins prentuð í nokkur hundruð eintökum. Ársskýrslan var tilnefnd til fjölda innlendra og erlendra verðlauna. Má þar nefna tilnefningar til Digital Communication Awards og European Excellence Awards fyrir rafræna miðlun ásamt viðurkenningu frá Awwwards, alþjóðlegum samtökum hönnuða, vefhönnuða og forritara. Ársskýrslan var kjörin besti fyrirtækjavefur ársins á Íslensku vefverðlaununum, hlaut Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin, fyrir bestu vefauglýsingu og var tilnefnd sem vefur ársins hjá Nexpo.

Hægt er að kynna sér umfjöllun um ársskýrslu 2014 hér 

Hægt er að kynna sér ársskýrslu 2014 hér: Ársskýrsla Landsvirkjunar 2014

Fréttasafn Prenta