Frétt

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar er komin út

7. júní 2013

Frá árinu 2006 hefur Landsvirkjun árlega gefið út umhverfisskýrslu þar sem ítarlega er fjallað um umhverfisstjórnun hjá fyrirtækinu, þar með talið umhverfisvöktun og árangur fyrirtækisins í umhverfismálum. Lögð er áhersla á heiðarlega og opinskáa framsetningu upplýsinga með það að markmiði að stuðla að opinni og málefnalegri umræðu um málaflokkinn.

Hagkvæm vinnsla í sátt við umhverfi og samfélag gerir fyrirtækinu kleift að skila arði til samfélagsins og taka virkan þátt í uppbyggingu fjölbreytts og arðvænlegs atvinnulífs í fremstu röð á alþjóðamælikvarða.

Skýrsluna er hægt að nálgast hér: Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar 2012 (PDF)

Úr umhverfisskýrslu 2012

  • Dregið var úr umhverfisáhrifum jarðvarmavinnslu og stutt við bætta nýtingu jarðhitakerfisins með niðurdælingu á skiljuvatni. Djúpförgun ársins var 2.563 tonn sem er sambærilegt við árið 2011. Sá áfangi náðist hinsvegar að í lok ársins var gangsettur nýr dælubúnaður sem dælir nú niður um 80% af skiljuvatninu á yfir 2000 metra dýpi.
  • Styrkur brennisteinsvetnis var mældur með loftgæðamælum á Bjarnarflagssvæðinu en hann mældist aldrei yfir viðmiðunarmörkum á árinu 2012.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda dregst saman milli ára um 4%. Stærstan hluta losunarinnar má rekja til útstreymis frá jarðvarmavinnslu (75%) og losun frá lónum vatnsaflsvirkjana (24%).
  • Gerð var úttekt samkvæmt nýjum alþjóðlegum matslykli á undirbúningi fyrirtækisins á Hvammsvirkjun í neðanverðri Þjórsá. Matslykillinn skilgreinir hversu vel starfsemi vatnsaflsvirkjana fellur að markmiðum um sjálfbæra þróun. Fyrirtækið reyndist uppfylla kröfur um góðar starfsvenjur í 20 þáttum af 21 sem teknir voru til skoðunar og í yfir helming uppfyllti Landsvirkjun kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur.
  • Rannsóknir á fiski í Þjórsá héldu áfram á árinu en verði af virkjun í neðanverðri Þjórsá er gert ráð fyrir að gripið verði til mótvægisaðgerða til að lágmarka áhrif virkjanna á fiskistofna í ánni. Líkan af Urriðafossvirkjun var byggt og notkun seiðafleytu prufuð.

Landsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001. Fyrirtækið hefur markað sér umhverfisstefnu og leggur áherslu á að greina umhverfisáhrif starfseminnar og draga markvisst úr þeim. 

Fréttasafn Prenta