Frétt

Umsögn um drög að lokaskýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar

4. ágúst 2016
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur sent umsögn um drög að lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar sem send var til umsagnar 11. maí sl. Um er að ræða yfirlit um þau meginatriði sem Landsvirkjun telur að vinna þurfi með ítarlegri hætti svo að undirbúningur að tillögu ráðherra að verndar- og orkunýtingaráætlun uppfylli öll skilyrði laga um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011.

Tvö mikilvæg atriði verða sérstaklega nefnd hér:

  • Sjálfbær þróun á að vera leiðarljós við gerð áætlunarinnar samkvæmt fyrrgreindum lögum. Þeir þættir, sem meta á í því sambandi eru umhverfi, samfélag og efnahagur. Verkefnisstjórn hefur aflað gagna um náttúru og menningarminjar (faghópur 1), svo og ferðaþjónustu, beit og veiði (faghópur 2). Verkefnisstjórn byggir tillögur sínar eingöngu á þessum þáttum. Ekki hefur tekist að afla nægilegra gagna um samfélagslega þætti (faghópur 3) og efnahagsleg áhrif (faghópur 4) svo sem nánar verður rökstutt síðar í þessari umsögn. Ljúka þarf því þeim verkefnum sem lúta að mati á samfélagslegum og efnahagslegum þáttum áður en endanleg tillaga er lögð fram.
  • Samræmi þarf að vera milli flokkunar virkjunarkosta og afmörkunar landsvæða. Tillögur um afmörkun landsvæða þarf að undirbyggja og rökstyðja mun betur út frá einstökum virkjunarkostum. Ekki er heimilt að setja heil vatnasvið í verndarflokk án þess að farið sé að lögum um verklag og málsmeðferð við flokkun virkjunarkosta.

Fleiri atriði koma til eins og rakið er í umsögninni. Þar má t.d. nefna að á svæðum sem friðlýst eru gagnvart orkuvinnslu er öll orkuvinnsla bönnuð, sama af hvaða toga hún er. Þá eru mannvirki virkjunarkosta talin hafa áhrif á ferðamennsku í tuga og jafnvel yfir 100 km fjarlægð. Ennfremur má færa rök fyrir því að verkefnisstjórn þurfi meiri tíma til að afla þeirra gagna sem til þarf svo að unnt sé að leggja fram heildstæða verndar- og orkunýtingaráætlun.

Umsögn Landsvirkjunar í heild sinni má nálgast hér en með henni fylgir nýtkomin skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um rammaáætlun og þjóðhagslega afkomu virkjana:

http://www.landsvirkjun.is/Media/almenn-umsogn-landsvirkjunar.pdf

Landsvirkjun sendir ennfremur athugasemdir við flokkun einstakra virkjunarkosta með sérstöku bréfi fyrir hvern kost, sem má nálgast hér:

http://www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/rammaaaetlun

Fréttasafn Prenta