Frétt

Undirbúningsframkvæmdir og aukin umhverfisvöktun í Bjarnarflagi

3. júní 2013

Eins og kom fram á opnum kynningar- og samráðsfundi fyrir íbúa Skútustaðahrepps í Reykjahlíðarskóla mánudaginn 13. maí sl. og kynnt var í frétt Landsvirkjunar til fjölmiðla verður undirbúningsframkvæmdum vegna nýrrar virkjunar í Bjarnarflagi haldið í lágmarki þar til ákvörðun um byggingu virkjunar liggur fyrir. Ákvörðun um virkjun er háð orkusölusamningum og niðurstöðum á nýrri úttekt á gildandi mati á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar. Unnið er að úttektinni og er niðurstöðu hennar að vænta á næstu mánuðum.

Í sumar þarf að huga að frágangi vegna undirbúningsframkvæmda sem hófust síðasta haust og ekki náðist að ljúka sökum veðurs. Áætlað er að þessar undirbúningsframkvæmdir standi yfir í júní en verði lokið í júlí mánuði. Framkvæmdirnar snúa einkum að lagfæringum og frágangi á lögnum í jörðu og yfirborðsfrágangi á byggingarreit virkjunar, sem og aðstöðusköpun á lóð Landsvirkjunar í Reykjahlíð.

Ekki verður ráðist í nýjar framkvæmdir nema frekari ákvarðanir um virkjunina liggja fyrir.

Aukin umhverfisvöktun

Landsvirkjun hefur undanfarna mánuði aukið við rannsóknir og umhverfisvöktun í tengslum Bjarnarflagsvirkjun. Búið er að setja upp tvo nýja brennisteinsvetnismæla til viðbótar við þann sem fyrir var í Reykjahlíð ásamt því að sett verður upp 30 metra veðurmastur á næstu vikum ásamt nokkrum minni veðurstöðvum. Markmiðið er að auka þekkingu á dreifingu brennisteinsvetnis vegna jarðhitanýtingar við Námafjall og samspil þess við veðurfar á svæðinu.

Nýju mælarnir eru staðsettir við Grunnskóla Skútustaðahrepps og við bæinn Hólmar í landi Voga. 

Fréttasafn Prenta