Frétt

Undirbúningur Þeistareykjavirkjunar í sumar

3. júní 2014

Sumarið 2014 verður undirbúningsframkvæmdum vegna Þeistareykjavirkjunar haldið áfram. Áfram verður unnið að aðstöðusköpun á fyrirhuguðu virkjunarsvæði, jarðvegsframkvæmdum á lóð stöðvarhúss og lagningu vatnsveitu.

Helstu verkefni sumarsins eru frágangur virkjanavegar frá Húsavík inn á Þeistareyki, með tilheyrandi uppgræðslu vegfláa og plöntun gróðurs á og við framkvæmdasvæði. Unnið hefur verið að heildstæðri uppgræðsluáætlun fyrir virkjunarsvæðið og liggur hún til grundvallar aðgerðum sumarsins.

Í marsmánuði síðastliðinn bauð Landsvirkjun út jarðvegsframkvæmdir á lóð væntanlegs stöðvarhúss sem og lagningu vatnsveitu virkjunar. Tilboð voru opnuð um miðjan aprílmánuð. Um jarðvegsframkvæmdir á stöðvarhússlóð var samið við G. Hjálmarsson ehf. á Akureyri og um lagningu vatnsveitu var samið við Þ.S. verktaka á Egilsstöðum. Verktími beggja verksamninga er frá 1. júní til 30. september.

Samhliða fyrrnefndum útboðum voru boðnar út rannsóknarboranir á Norðurlandi fyrir árið 2014. Tvö tilboð bárust og var samið við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um borun smærri hola og Jarðboranir um borun stærri hola. Áætlaður verktími er 1. júní til og með 30. september.

Í samræmi við stefnu Landsvirkjunar um ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hefur verið stefnt að frekari uppbyggingu jarðvarmavinnslu fyrirtækisins á Norðausturlandi og eru Þeistareykir sá kostur sem nú er horft til. Frá því að rannsóknarboranir hófust á Þeistareykjum árið 2002 hefur verið staðið að umfangsmiklum rannsóknum og vöktun á svæðinu. Allur undirbúningur virkjunar er í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá október 2010.

Undanfarin ár hefur Landsvirkjun unnið að undirbúningi Þeistareykjavirkjunar, meðal annars með fjölbreyttum rannsóknum, borunum eftir gufu, og lagningu vega inn á virkjunarsvæðið. Á Þeistareykjum er nú tiltæk gufa sem samsvarar 50 MW rafmagnsframleiðslu.

Samhliða undirbúningi hefur verið unnið að útboðshönnun virkjunar og er henni nú lokið. Þann 28. mars 2014 gaf Orkustofnun út virkjunarleyfi fyrir 100 MW jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum, ásamt nýtingarleyfum fyrir jarðvarma og grunnvatn. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar gaf út byggingarleyfi fyrir virkjun og tengdum mannvirkjum þann 30. apríl. Allur undirbúningur miðar við að Landsvirkjun geti tekið ákvörðun um byggingu virkjunar með stuttum fyrirvara.

Kynning á verkefninu

Fréttasafn Prenta