Frétt

Undirbúningur Þeistareykjavirkjunar metinn

15. júní 2017
Framkvæmdasvæðið við Þeistareyki. Myndin er tekin í september 2015.

Almennt hefur verið vel staðið að undirbúningi Þeistareykjavirkjunar út frá hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, samkvæmt matsskýrslu sem er nú komin út og er aðgengileg hér.

Úttektin á Þeistareykjum er liður í prófun á sjálfbærnimatslykli fyrir jarðvarmavirkjanir (e. Geothermal Sustainability Assessment Protocol (GSAP)), sem er unnin í samstarfi Orkustofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, HS Orku og Umhverfisstofnunar. Aðferðafræðin byggir á alþjóðlegum sjálfbærnimatslykli fyrir vatnsaflsvirkjanir (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol) sem þróaður hefur verið af vatnsorkufyrirtækjum, nokkrum þjóðríkjum, frjálsum félagasamtökum og fjármálastofnunum og hefur verið notaður víða um heim.

Höfundur skýrslunnar og jafnframt matsmaður úttektarinnar, Joerg Hartmann, er vottaður úttektarmaður fyrir sjálfbærniúttektir á vatnsaflsvirkjunum (HSAP). Hartmann er vel kunnugur Landsvirkjun en hann hefur áður tekið þátt í sjálfbærniúttektum á undirbúningsferli Hvammsvirkjunar, árið 2012, og rekstri Blöndustöðvar, árið 2013. Á grundvelli þeirrar úttektar hlaut Blönduvirkjun á dögunum IHA Blue Planet verðlaunin, en þau voru veitt á ráðstefnu IHA, samtaka vatnsorkufyrirtækja.  

Niðurstöður matsskýrslunnar gefa til kynna að undirbúningsferlið við Þeistareykjavirkjun hafi almennt fallið vel að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun samkvæmt sjálfbærnisvísum lykilsins. Af þeim 17 vísum sem metnir voru fengu 11 þeirra hæstu einkunn sem lykillinn veitir, eða „proven best practise“. Þá þykir verkefnið til fyrirmyndar m.a. hvað varðar samskipti og samráð við hagsmunaraðila og nýtingu á jarðhitaauðlindinni.

Fréttasafn Prenta