Frétt

Úttekt á undirbúningsvinnu vegna Hvammsvirkjunar

24. október 2012

Komin er út skýrsla með niðurstöðum úttektar á vinnu Landsvirkjunar vegna undirbúnings Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá. Úttektin er gerð samkvæmt nýjum alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. 


Alþjóðlegur matslykill um sjálfbæra nýtingu vatnsafls
Matslykillinn er unninn að frumkvæði Alþjóða vatnsaflssamtakanna, e. International Hydropower Association (IHA) og hefur breiður hópur alþjóðlegra hagsmunaaðila á sviði þjóðfélags- og umhverfismála komið að þróun hans. Landsvirkjun hefur unnið með IHA að þróun matslykilsins frá árinu 2008 en hann skilgreinir hversu vel starfsemi vatnsaflsvirkjana fellur að markmiðum um sjálfbæra þróun.  
Matslykillinn byggir á stöðlum í yfir 20 flokkum sem ætlað er að lýsa sjálfbærni vatnsaflsvirkjana og beita má honum á mismunandi stigum, við frumhönnun, verkhönnun, byggingu og rekstur virkjana.   Úttektin fer þannig fram að alþjóðlegir úttektaraðilar yfirfara gögn er varða undirbúning virkjunar og ræða við fulltrúa fjölbreyttra hagsmunaaðila til staðfestingar á fyrirliggjandi gögnum og upplýsinga um önnur sjónarmið er varða framkvæmdina.

Richard Taylor framkvæmdastjóri International Hydropower Association flytur erindi um endurnýjanlega orkugjafa þar sem hann fjallar meðal annars um matslykilinn á afmælisráðstefnu Verkís fimmtudaginn 25. október.
Sjá nánar hér:  http://www.verkis.is/frodleikur/frettir/nr/3084

Niðurstöður úttektar á undirbúningsvinnu vegna Hvammsvirkjunar
Úttektin fór fram hjá Landsvirkjun í maí síðastliðnum og var úttektarteymið skipað fimm alþjóðlegum sérfræðingum.  Úttektin var umfangsmikil og ræddu úttektaraðilar við 58 einstaklinga sem voru fulltrúar hagsmunaaðila, ýmist stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja eða félagasamtaka.

Úttektin fól í sér nákvæma skoðun á 21 ólíkum þáttum sem varða undirbúning mögulegrar virkjunar og eiga að gefa mynd af því hversu vel undirbúningsvinnan  fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun.  Sem dæmi um efnisflokka má nefna staðsetning og hönnun virkjunar, öryggi framkvæmdar og innviða, efnahagslega hagkvæmni, lýðheilsa og menningararfleifð (sjá mynd fyrir tæmandi lista efnisflokka).

Niðurstöður úttektarinnar eru að Landsvirkjun uppfyllir kröfur um góðar starfsvenjur í 20 þáttum af 21 sem teknir voru til skoðunar og  í yfir helmingi tilvika eða tólf efnisflokkum er það niðurstaða úttektaraðila að Landsvirkjun uppfylli kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur.  Í einum flokki, samskipti og samráð, telst Landsvirkjun ekki uppfylla kröfur um góðar starfsvenjur en samkvæmt staðlinum þarf að vera til staðar skrifleg áætlun byggð á hagsmunaaðilagreiningu um samskipti og samráð á öllum stigum framkvæmdar.
Landsvirkjun tekur allar ábendingar sem koma fram í úttektinni alvarlega og mun vinna að endurskoðun og úrbótum á starfsvenjum þar sem við á og áfram kappkosta að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. 

Í framhaldinu áformar Landsvirkjun að beita matslyklinum á virkjanir sínar, allt frá fyrstu stigum undirbúnings virkjana en einnig við mat á rekstri þeirra aflstöðva sem fyrirtækið hefur rekið um áratugaskeið. Þess er vænst að niðurstöðurnar leiði í senn til betri undirbúnings og framkvæmda sem og aukinnar sjálfbærni virkjana í rekstri.

Úttekt á undirbúningsvinnu vegna Hvammsvirkjunar (pdf)

Fréttasafn Prenta