Frétt

Vatni hleypt í farveg Jökulsár í Fljótsdal

12. júní 2017

Um þessar mundir er verið að hleypa vatni um yfirfall Ufsarlóns í farveg Jökulsár í Fljótsdal, en stefnt er að því að halda rennsli í farveginum í sumar.

Miðað við vatnsstöðuna nú eru allar líkur á því að Hálslón fari á yfirfall fyrr en á undanförnum í árum og því verði ekki þörf á að nýta allt það vatn sem kemur frá Hraunaveitu, en eitt af skilyrðum umhverfisráðherra fyrir virkjunarleyfi við Kárahnjúka var að yfirfallsvatn væri nýtt á skipulegan hátt á ferðamannatíma og að leitast yrði við að ná meðalrennsli í farveg Jökulsár í Fljótsdal í júlí og ágúst í góðum vatnsárum. Með því að hleypa vatni á farveginn nú er Landsvirkjun að vinna samkvæmt því skilyrði.

Gera má ráð fyrir að meira vatn verði því á fossum Jökulsár í Fljótsdal í sumar en undanfarin ár, þannig að þeir ferðaþjónustuaðilar sem skipuleggja hesta- eða gönguferðir meðfram ánni geta skipulagt sig í samræmi við það.

Fréttasafn Prenta