Frétt

Vatnsstaða fer hægt batnandi

11. apríl 2014

Tíðarfar á yfirstandandi vetri hefur verið mjög óhagstætt og innrennsli í lón afbrigðilegt. Rennsli í Tungnaá hefur framan að vetri verið minna en finna má í mælingum síðustu 55 árin og rennsli í Blöndu hefur verið nálægt sögulegu lágmarki.

Landsvirkjun leggur áherslu á örugga afhendingu raforku til langs tíma og aðgerðir vegna slakrar vatnsstöðu í vetur hafa tekið mið af að innrennsli verði samkvæmt lægstu spám. Öll skerðanleg raforka sem hægt er að skerða samkvæmt samningum við stóriðjufyrirtæki og heildsölur hefur verið skert og verður svo áfram þar til staðan batnar það afgerandi að hægt verði að aflétta þeim.

Breyting til batnaðar varð á veðri í byrjun apríl og í byrjun þessarar viku hófst hægfara leysing á hálendinu. Rennsli í Tungnaá, Þjórsá og Blöndu hefur aukist og vatnshæð Þórisvatns hefur farið hægt hækkandi með hverjum degi frá 3. apríl,  en þann dag fór vatnshæðin í lægstu stöðu sem mælst hefur frá upphafi 560,31 m y.s. Er það um 11 metrum undir meðaltali vatnshæðar Þórisvatns á þessum tíma árs. Vatnshæð Blöndulóns hefur einnig farið hækkandi frá 5. apríl og stendur nú í rúmum 467 m y.s., sem er um 5 metrum undir meðalhæð á þessum árstíma. Hægt hefur á niðurdrætti í Hálslóni.

Tímabundið aukið rennsli í ám hefur skilað sér í hækkun á vatnshæð í Þórisvatni og Blöndulóni. Ef miðað er við að innrennsli fram til vors verði samkvæmt lægstu spám þá hefur staðan ekki batnað nógu mikið til að hægt sé að aflétta skerðingum.

Sjá nánar: rannsoknirogthroun/voktun

Fréttasafn Prenta