Frétt

Vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismatsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun

12. nóvember 2014

Bjarnarflagsvirkjun er í nýtingarflokki rammáætlunar og fékk þar mjög góða umsögn.

Bjarnarflagsvirkjun er í nýtingarflokki í rammaáætlun Alþingis um vernd og orkunýtingu landsvæða. Núverandi Bjarnarflagsstöð Landsvirkjunar hefur verið í rekstri frá árinu 1969, eða í yfir 40 ár. Í Bjarnarflagi er ein elsta nýtingarsaga háhitasvæðis á Íslandi og hefur nýting jarðhitavökva á svæðinu í um hálfa öld jafngilt 15-45 MW raforkuframleiðslu.

Landsvirkjun óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar á gamla umhverfismatinu í október 2013 og gerði ráð fyrir að það yrði endurtekið að hluta.

Landsvirkjun hefur markað sér þá stefnu að nýta með sjálfbærum hætti þau jarðhitasvæði sem fyrirtækinu hefur verið trúað fyrir. Með nýrri Bjarnarflagsvirkjun er mikilvægt að tefla ekki lífríki Mývatns í hættu. Landsvirkjun telur því mikilvægt að gæta varúðar við allar framkvæmdir í Bjarnarflagi.

Vegna nálægðar Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn og íbúabyggð taldi Landsvirkjun mikilvægt að meta betur umhverfisáhrif sem snúa að mögulegum smáskjálftum samfara djúplosun á jarðhitavökva, en þessi þáttur var vanreifaður í fyrra mati. Jafnframt að metið verði hvort nauðsynlegt sé að endurskoða vissa þætti varðandi grunnvatn og loftgæði.

Skipulagsstofnun gengur heldur lengra en Landsvirkjun gerði ráð fyrir enda byggist ákvörðun hennar á að reist verði 90 MW virkjun en ekki 45 MW.

Gert ráð fyrir að lagt verði til að gera nýtt umhverfismat.

Landsvirkjun hefur stefnt að varfærinni uppbyggingu með 45 MW virkjun sem fyrsta áfanga. Landsvirkjun mun nú fara ítarlega yfir ákvörðun Skipulagsstofnunar og undirbúa næstu skref. Líklegt er að lagt verði til að gera nýtt umhverfismat en enn á eftir að taka afstöðu til þess hvort það verði fyrir 45 MW virkjun eða 90 MW virkjun.

Nánar

Fréttasafn Prenta