Frétt

Vegna rafmagnssamninga Landsvirkjunar

17. desember 2015
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Rafmagnssamningur við Rio Tinto Alcan í gildi til ársins 2036

Rio Tinto Alcan og starfsmenn álversins í Straumsvík hafa átt í viðkvæmum kjaraviðræðum á undanförnum vikum. Á þeim tíma hafa utanaðkomandi aðilar séð sér hag í að reyna að blanda rafmagnssamningi Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan inn í umræðuna og gera hann að vandamáli í tengslum við kjaradeiluna.

Landsvirkjun og rafmagnssamningurinn tengjast þessum kjaraviðræðum á engan hátt og hefur Landsvirkjun því haldið sig til hlés í umræðunni. Vegna ítrekaðra fyrirspurna, sem beint hefur verið að Landsvirkjun, er rétt að upplýsa um eftirfarandi:

Landsvirkjun og álverið í Straumsvík hafa átt í farsælu viðskiptasambandi um áratuga skeið og á því hefur engin breyting orðið.

Rafmagnssamningur Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan gildir til ársins 2036. Samningurinn var undirritaður árið 2010 og þegar hann var gerður réðust bæði fyrirtækin í umfangsmiklar fjárfestingar. Hann var nýlega endurskoðaður, í desember 2014, með óbreyttum samningstíma. Rafmagnssamningurinn er hagstæður fyrir báða aðila og tryggir álverinu rafmagn á samkeppnishæfum kjörum til langs tíma. Rafmagnssamningurinn er í fullu gildi, enginn ágreiningur er milli fyrirtækjanna um efni hans, engin tilkynning hefur borist um að aðilar hyggist ekki standa við skuldbindingar samningsins og engar viðræður standa yfir um breytingar á honum.

Í þessu sambandi má t.d. benda á að ef kostnaður fer fram úr áætlun við virkjun er ekki óskað eftir breytingum á raforkuverði, enda hafa báðir samningsaðilar lagt í miklar fjárfestingar og bera hvor ábyrgð á framkvæmdum sínum.

Sú áskorun sem álframleiðendur standa frammi fyrir í dag er lágt álverð en ekki hátt raforkuverð, hvað þá samkeppnishæft raforkuverð sem í boði er í langtíma samningum við Landsvirkjun og iðnfyrirtæki í mörgum greinum keppa um að tryggja sér. Það er skiljanlegt að rekstrarumhverfi álvera sé krefjandi þegar álverð er undir 1.800 USD/t.  En þetta er tímabundið ástand og langtímahorfur í áliðnaði eru að mati Landsvirkjunar ágætar. 

Aðilar eru bundnir trúnaði um efni rafmagnssamningsins, en í umræðum um hann í fjölmiðlum hefur verið spurt um kaupskyldu álversins, móðurfélagsábyrgð og fleiri atriði, sem ekki er hægt að ræða opinberlega.

Um verðmæti raforkusamninga Landsvirkjunar fyrir þjóðarhag

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar. Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Landsvirkjun og starfsfólki þess er þar með falið að gæta stórs hluta af verðmætustu auðlindum landsins í flóknum langtíma samningum við erlend stórfyrirtæki. 

Raforkusamningar Landsvirkjunar eru meðal stærstu samninga sem gerðir eru í íslensku viðskiptalífi. Mótaðilar eru öflug alþjóðleg fyrirtæki sem gæta hagsmuna sinna af mikilli festu. Bæði við gerð fyrstu samninga og ekki síður þegar kemur til endursamninga, oft eftir 10 ár eða þegar til stækkana verksmiðja kemur. Verðmæti samninganna er gríðarlegt og getur numið 500-600 milljörðum króna á 10 ára tímabili. Samanlagt verðmæti þeirra er því sambærilegt við samninga við kröfuhafa föllnu viðskiptabankanna þriggja.

Markmið Landsvirkjunar er að bjóða ávallt samkeppnishæf kjör á raforku miðað við raforkumarkaði í Evrópu með langtímasamningum, hagstæðu verði og miklu afhendingaröryggi. Fast verð til lengri tíma veitir Landsvirkjun samkeppnisforskot sem viðskiptavinir meta mikils. Erlendis eru samningar yfirleitt til skemmri tíma, auk þess sem verð breytist eftir ástandi á raforkumörkuðum. Slík óvissa hentar illa stærri raforkunotendum, sem sækjast eftir stöðugleika í rekstri sínum.

Mikil eftirspurn er eftir rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi og nýjum raforkusamningum við Landsvirkjun. Er eftirspurn frá mörgum og fjölbreyttum viðskiptavinum í annars erfiðu árferði í efnahagsmálum heimsins.  Eftirspurnin er mun meiri en framboðið og meiri en Landsvirkjun getur þjónustað. Það staðfestir að Landsvirkjun er að bjóða hagkvæma samninga og afar ólíklegt er að hagstæðari langtímasamningar séu í boði annars staðar.

Norðurál, í eigu Century Aluminum, í viðræðum við Landsvirkjun

Komið hefur fram opinberlega að um þessar mundir standa yfir viðræður um nýjan raforkusamning við Norðurál, sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins Century Aluminum, en núverandi samningur rennur út árið 2019. Vilji Landsvirkjunar stendur til að endursemja við Norðurál og tryggja álframleiðandanum rafmagn í nýjum samningi sem yrði hagstæður fyrir báða aðila.

Eldri samningar, eins og samningurinn við Norðurál frá árinu 1997, voru gerðir við allt aðrar aðstæður, fyrir meira en 20 árum. Samningarnir þá voru vegna nýbygginga á verksmiðjum hérlendis og urðu að vera nægilega hagstæðir til að slík fjárfesting gæti gengið upp. Því eru gildandi samningar Norðuráls afar hagstæðir. Endurnýjaður samningur Rio Tinto Alcan er einnig hagstæður, miðað við að verksmiðjan var reist að grunni til fyrir rúmum 40 árum.

Landsvirkjun telur mikilvægt að almenningur og fjölmiðlar séu meðvitaðir um þessa stöðu.

Fréttasafn Prenta