Frétt

Vegna umfjöllunar um geislavirkni frá borholum á Reykjanesi

22. september 2015

Nýlega birtust fréttir um að aukin náttúruleg geislun hefði fundist í útfellingarsýnum í vinnslurás Reykjanesvirkjunar.  Í kjölfarið hefur Landsvirkjun hafið úttekt á hættu á að slík geislun fyrirfinnist í þeim jarðhitavirkjunum sem Landsvirkjun rekur í Mývatnssveit.

Líklegt má telja að sú geislavirkni sem fundist hefur á Reykjanesi sé sjaldgæft fyrirbæri sem myndast hafi við afar sérstæðar aðstæður, bæði hvað varðar skiljuþrýsting og efnasamsetningu vökva.  Þar sem efnasamsetning og eðli vökvans í jarðhitakerfum þeim sem Landsvirkjun nýtir er af öðru tagi er ólíklegt að geislavirk efni nái að safnast upp í holutoppum eða gufulögnum á starfssvæðum fyrirtækisins í sambærilegum styrk og á Reykjanesi. Vökvinn í jarðhitakerfinu á Reykjanesi er miklu efnaríkari en vökvinn á Þeistareykjum, í Kröflu eða í Bjarnarflagi. Á Reykjanesi er um svokallaðan jarðsjó að ræða á meðan jarðhitasvæði Landsvirkjunar byggja á innrennsli á köldu grunnvatni.

Landsvirkjun undirbýr nú greiningu á útfellingasýnum sem safnað hefur verið í skiljum Kröfluvirkjunar og mun fyrirtækið kynna niðurstöður þeirra greininga þegar þær liggja fyrir.

Fréttasafn Prenta