Frétt

Vel heppnaður fundur um Orkurannsóknasjóð

24. maí 2017
Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur og fyrrverandi háskólarektor, hlaut þakklætisvott frá Landsvirkjun fyrir 10 ára farsælt starf sem stjórnarformaður Orkurannsóknasjóðs.
Að erindum loknum stýrði Óli Gunnar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Landsvirkjun, pallborðsumræðum um hlutverk sjóðsins. Þátttakendur voru Sigurður Magnús Garðarsson frá Háskóla Íslands, Guðrún Sævarsdóttir frá Háskólanum í Reykjavík og Jóhann Örlygsson frá Háskólanum á Akureyri.
Guðrún Marteinsdóttir kynnti rannsókn sína á vistfræðilegum tengslum ferskvatnsrennslis til sjávar og hrygningar og klaks þorsks.
Einar Sveinbjörnsson kynnti rannsókn á vetrarís á Þingvallavatni.
Yfir 50 gestir sóttu fundinn í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur.
Hlustað af athygli á kynningar á verkefnum sem hlotið hafa styrk úr Orkurannsóknasjóði.

Yfir 50 gestir sóttu opinn fund sem haldinn var í tilefni af því að Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar hefur starfað í tíu ár og veitt yfir 500 milljóna króna styrki til námsmanna og rannsóknaverkefna á sviði orku- og umhverfismála.

Á fundinum, sem haldinn var í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, kynnti Sveinbjörn Björnsson stjórnarformaður sjóðsins starfsemi hans og að því loknu veitti Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, honum blómvönd sem þakklætisvott fyrir að hafa gegnt stjórnarformennsku í tíu ár. Sveinbjörn lætur nú af störfum sem formaður, eftir tíu ára farsælt starf í þágu Orkurannsóknasjóðs.

Að loknum erindum Rögnu og Sveinbjörns fluttu átta styrkþegar kynningar á verkefnum sínum:

Guðrún Gísladóttir flutti erindið Vistkerfisbreytingar á hálendi norðan Langjökuls síðustu árþúsundir. Einar Sveinbjörnsson kynnti rannsókn á Vetrarís á Þingvallavatni, Jóhannes Sturlaugsson fjallaði um Gönguhegðun urriða í Efra-Sogi og Úlfljótsvatni, Hrund Ó. Andradóttir hélt erindið Umhverfisrannsóknir í Lagarfljóti, Guðrún Marteinsdóttir kynnti Vistfræðileg tengsl ferskvatnsrennslis til sjávar og hrygningar og klaks þorsks, Guðjón Eggertsson hélt kynningu fyrir hönd Yan Lavallée undir yfirskriftinni Mechanical and permeability constraints for improved geothermal reservoir exploitation at Krafla, Iceland, Jóhann Örlygsson flutti kynningu á verkefninu Next Generation Biofuels from Protein-rich Biomass og að síðustu kynnti Tómas Jóhannesson verkefnið Mælingar á yfirborði og yfirborðsbreytingum íslenskra jökla með leysimælingum.

Að kynningum loknum stýrði Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Landsvirkjun, pallborðsumræðum um hlutverk sjóðsins. Þátttakendur voru Sigurður Magnús Garðarsson frá Háskóla Íslands, Guðrún Sævarsdóttir frá Háskólanum í Reykjavík og Jóhann Örlygsson frá Háskólanum á Akureyri. Voru þau sammála um að sjóðurinn hefði verið mikilvægur og haft mikil áhrif á nám í orku- og umhverfismálum á þeim tíu árum sem hann hefur verið starfræktur.

Markmið Orkurannsóknasjóðs er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Sjóðurinn miðar að því að gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri, og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samræmist umhverfisstefnu Landsvirkjunar.

Á þeim 10 árum sem sjóðurinn hefur starfað hefur hann veitt 57 styrki til doktorsnáms og 94 styrki til meistaranáms. Styrkina hafa hlotið 66 konur og 85 karlar. Sjóðurinn hefur einnig veitt 202 styrki til rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknarverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála. Í heild hafa styrkir sjóðsins til námsmanna numið 115 milljónum króna og styrkir til rannsóknarverkefna 439 milljónum króna.

Fundurinn var í beinni útsendingu á YouTube-rás Landsvirkjunar, en upptöku frá honum má nálgast hér.

Fréttasafn Prenta