Frétt

Vel heppnaður fundur um samfélagsábyrgð og Heimsmarkmið SÞ

30. mars 2017
Hörður Arnarson fjallaði um loftslagsmál á fundinum.
Ragnhildur Arnljótsdóttir fjallaði um jafnrétti kynjanna.
Sigurður Ingi Friðleifsson fjallaði um sjálfbæra orku.
Stella Marta Jónsdóttir var fundarstjóri.
Húsfyllir var á fundinum.

Húsfyllir var á morgunverðarfundi Landsvirkjunar um samfélagsábyrgð og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn var á Hótel Reykjavík Natura í morgun. Á fundinum höfðu framsögu Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs. Stella Marta Jónsdóttir, forstöðumaður verkefnastofu hjá Landsvirkjun, var fundarstjóri.

Í máli Harðar kom fram að Landsvirkjun legði ríka áherslu á að vinna orku með sjálfbærum hætti í sátt við umhverfi og samfélag. Til að ná sem bestum árangri í þeim efnum væri litið til alþjóðlegra samtaka og staðla og hefði fyrirtækið því ákveðið að leggja áherslu á þrjú Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna; verndun jarðarinnar (loftslagsmál), sjálfbæra orku og jafnrétti kynjanna.

Í erindi sínu fjallaði Hörður um loftslagsmál, sem snerta markmið númer 13 um verndun jarðarinnar. Í máli hans kom fram að óheft losun gróðurhúsalofttegunda gæti leitt til hlýnunar á bilinu 3,7-4,8°C á 21. öldinni, en hlýnun á bilinu 1-4°C gæti ýtt af stað óafturkræfri bráðnun Grænlandsjökuls, sem myndi hækka sjávarborð um 7 metra. Markmiðið væri því að hægja á loftslagsbreytingum, svo vistkerfi og samfélög geti aðlagað sig breytingunum.

Hörður rakti muninn á þeim markmiðum sem samþykkt hefðu verið á loftslagsfundinum í París í desember 2015, um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá 1990-2030 annars vegar og hins vegar hinu svokallaða ETS-kerfi (Emissions Trading Scheme), sem er sérstakt viðskiptakerfi í Evrópusambandinu með losunarheimildir fyrir iðnfyrirtæki og flugsamgöngur. Í kerfinu er sett  þak á heildarlosun í Evrópu og það lækkað ár frá ári. Með tilkomu þess myndast hagrænn hvati fyrir fyrirtækin að draga úr losun því fari þau umfram heimildir þarf að kaupa viðbótarheimildir eða fá á sig fjársekt.

Allir þurfa að leggja sitt af mörkum

Í kynningu Harðar kom fram að 80% af orkunni sem Landsvirkjun ynni væru seld til orkufreks iðnaðar og þar af væru 95% seld til iðnfyrirtækja sem væru bundin losunarkvótum ETS. Hafa bæri í huga að vinna að losunarmarkmiðum ríkja eftir 2020 væru með tvennum hætti; annars vegar muni fyrirtæki sem falla undir ETS þurfa að uppfylla skyldur innan viðskiptakerfisins, en tæplega 40% af losun Íslands eru innan ETS. Hins vegar þurfi ríki að taka á sig skuldbindingar varðandi losun utan viðskiptakerfisins. „Þá þurfa allir, fyrirtæki, félög og einstaklingar að leggja sitt af mörkum,“ sagði Hörður í erindi sínu. Þetta þýddi að það ekki myndi hjálpa Íslandi í að ná markmiði sínu um að draga úr losun að minnka stóriðjustarfsemi á landinu – aðrar aðgerðir yrðu að koma til.

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, fjallaði almennt um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en öll ríki SÞ hafa skuldbundið sig til að innleiða Heimsmarkmiðin til ársins 2030. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins, undirmarkmiðin 169 og mælikvarðarnir 230. Að sögn Ragnhildar er áhersla lögð á þrjár stoðir: félagslegar, efnahagslegar og umhverfislegar.

Hún greindi frá því að mikilvæg skref hefðu þegar verið stigin í átt að innleiðingu markmiðanna á Íslandi – og margt verið unnið - allt frá undirbúningi samþykktar markmiðanna. Ríkisstjórnin hefði í síðustu viku samþykkt að skipa verkefnisstjórn - sem halda myndi utan um greiningu - innleiðingu og kynningu á Heimsmarkmiðunum, auk þess sem ákveðið hefði verið að Ísland kynnti landsrýni á stöðu innleiðingar á þingi Sameinuðu þjóðanna sumarið 2018.

Framarlega en langt í land

Ragnhildur fjallaði svo sérstaklega um markmið 5, um jafnrétti kynjanna. Í erindi hennar kom fram að Ísland stæði eins og kunnugt er mjög framarlega á sviði jafnréttismála á heimsvísu, en við hefðum mælst fremst meðal þjóða á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir kynjajafnrétti átta ár í röð. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna væri með því mesta sem gerðist í heiminum - um 80% - sem er hæsta hlutfall innan OECD ríkja - og víða annars staðar í Evrópu væri aðeins um helmingur kvenna í launuðum störfum. Að mati Ragnhildar ættum við vissulega að vera stolt af því hversu langt við höfum náð – en við mættum samt ekki gleyma því að við ættum enn töluvert í land. Enn hallaði verulega á konur í íslensku samfélagi og atvinnulífi; sem dæmi mætti nefna að hlutur kvenna í stjórnum og framkvæmdastjórnum íslenskra fyrirtækja væri enn verulega minni en karla.

Að síðustu fjallaði Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, um Heimsmarkmið 7, sem lýtur að sjálfbærri orku. Líkti hann orkuvinnslu heimsins við bankastarfsemi, þar sem sá grundvallarmunur væri á jarðefnaeldsneyti og endurnýjanlegum orkugjöfum að með því að nýta hið síðarnefnda væri verið að leggja inn í bankann, til framtíðar, en við nýtingu jarðefnaeldsneytis væri einungis verið að taka út úr bankanum.

Ekki eftir neinu að bíða í orkuskiptum

Sigurður Ingi fjallaði um orkuskipti í samgöngum og sagði að ekki væri eftir neinu að bíða í þeim efnum. „Ef við skoðum tvo bíla af sömu gerð frá sama framleiðanda – annan rafbíl og hinn ekki – sjáum við að það þarf 20 kílóvattstundir til að komast 100 kílómetra á rafbílnum en 60 kílóvattstundir á bensínbílnum,“ sagði Sigurður.

Samkvæmt markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun skal hlutur endurnýjanlegrar orku í orkuvinnslu heimsins aukinn verulega fyrir árið 2030. Sigurður sagði að ekki væri sjálfgefið að hafa jafn góðan aðgang að grænum orkukostum á viðráðanlegu verði og við Íslendingar.  „Þá kannski er ekkert óeðlilegt að ætlast til þess að við látum okkar af mörkum. Við framleiðum 18 teravattstundir af raforku á Íslandi á hverju ári. Við notum bara fjórar. Við erum að leggja fjórtán teravattstundir í púkkið, ef svo má að orði komast,“ sagði Sigurður og útskýrði að þessar fjórtán teravattstundir væru notaðar við framleiðslu á vörum sem færu á heimsmarkað, sem að miklum meirihluta notaði jarðefnaeldsneyti við aðra framleiðslu. Í því ljósi væri t.a.m. ábyrgðarhluti að hætta þessari orkusölu til stórnotenda, dytti einhverjum það í hug.

Hér er skýrslan Samfélagsábyrgð Landsvirkjunar - Stefna og áherslur 2016.

Hér má nálgast upptöku af fundinum.

Hér er kynning_Harðar.

Hér er erindi_Ragnhildar.

Hér er erindi_Sigurðar.

Fréttasafn Prenta