Frétt

Vélbúnaður gömlu gufustöðvarinnar í Bjarnarflagi endurnýjaður

24. mars 2017
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og James McNaught-Davis, stjórnarformaður GEG, innsigla samninginn. Til vinstri á myndinni er Kristján Einarsson frá Landsvirkjun og hægra megin er Gestur R. Bárðarson frá GEG.

Landsvirkjun hefur samið við fyrirtækið Green Energy Geothermal (GEG) um að endurnýja vélbúnað gömlu gufustöðvarinnar í Bjarnarflagi. Um er að ræða vél sem er hönnuð til að nýta sama magn gufu og vélin sem nú er til staðar, en auka nýtni stöðvarinnar til muna og er það í samræmi við markmið Landsvirkjunar um að nýta betur þær orkuauðlindir sem fyrirtækinu er trúað fyrir. Að undangengnu útboði hefur verið samið við GEG um að hanna, framleiða og koma vélbúnaðinum fyrir.

Jarðhitavinnsla í Bjarnarflagi á sér langa sögu. Upphaf núverandi virkjunar má rekja til ársins 1963, þegar fyrsta holan var boruð og fyrirtækið Léttsteypan hóf að nýta jarðhita frá Bjarnarflagi til þurrkunar á steypu og steypueiningum.

Næstu árin voru boraðar fleiri holur samhliða uppbyggingu Kísiliðjunnar sem tók til starfa árið 1967. Gamla gufustöðin í Bjarnarflagi hóf vinnslu rafmagns árið 1969 og er því elsta jarðhitastöð Íslands. Vélasamstæða stöðvarinnar er af gerðinni British Thomson-Houston (BTH), en hún hafði áður verið rekin í sykurverksmiðju í Bretlandi frá árinu 1934. Gamla vélasamstæðan hefur gefið verulega eftir undanfarin ár og er svo komið að hún framleiðir lítið rafmagn og er orðin varasöm að vinna við.

Stöðin þjónar ekki lengur stóru hlutverki í orkuframleiðslu Íslands en er engu að síður mikilvæg fyrir Mývatnssveit. Hún vinnur allt það rafmagn sem sveitin þarf auk þess sem Hitaveita Skútustaðahrepps þiggur varma frá stöðinni og jarðböðin í Mývatnssveit byggja á skiljuvatni frá henni.
Til að tryggja áframhaldandi rekstur gömlu gufustöðvarinnar ákvað Landsvirkjun að endurnýja vélbúnað stöðvarinnar. Útboðið var auglýst síðasta sumar og munu framkvæmdir fara fram næsta vetur. Ekki verða truflanir á afhendingu rafmagns vegna þessa.

Fréttasafn Prenta