Frétt

Verðmætasköpun og þjóðarhagur

15. janúar 2019
Stefanía G. Halldórsdóttir, Gunnar Haraldsson og Magnús Árni Skúlason.
Valur Ægisson.
Dagný Ósk Ragnarsdóttir.
Signý Sif Sigurðardóttir var fundarstjóri.

Vel var mætt á opinn morgunverðarfund Landsvirkjunar undir yfirskriftinni „Orkumarkaðir í mótun: Verðmætasköpun og þjóðarhagur“ á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Á fundinum kynntu hagfræðingarnir Gunnar Haraldsson hjá Intellecon og Magnús Árni Skúlason hjá Reykjavík Economics nýja skýrslu sína um Orkuauðlindir Íslendinga og hagsæld til framtíðar, en einnig fóru Dagný Ósk Ragnarsdóttir og Valur Ægisson frá viðskiptagreiningu Landsvirkjunar yfir alþjóðlega samkeppni íslensks raforkuiðnaðar og ný tækifæri á stórnotendamarkaði. Fundarstjóri var Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsvirkjun.

Upptaka frá fundinum er á slóðinni https://youtu.be/51HpdqYyCFs og skýrsluna má nálgast á vef Landsvirkjunar https://www.landsvirkjun.is/Media/landsvirkjun-skyrsla-jan2019-lok.pdf.

Lítill aðili á stóru markaðstorgi

Magnús Árni byrjaði á því að fjalla um stöðu Landsvirkjunar í alþjóðlegri samkeppni. Hann sagði að Landsvirkjun væri lítill aðili á hinu alþjóðlega markaðstorgi raforku og þyrfti að vera stórt og öflugt fyrirtæki til þess að vera þátttakandi á þeim markaði. Hann bar saman stærð alþjóðlegra samkeppnisaðila og nefndi sem dæmi að efnahagsreikningur Landsvirkjunar næði ekki 10% af stærð efnahagsreiknings sænska orkufyrirtækisins Vattenfall, sem þó þætti ekki stórt á alþjóðamælikvarða. Hann varaði því við hugmyndum um að skipta Landsvirkjun upp, enda færu um 80% af vinnslu fyrirtækisins til alþjóðlegra stórfyrirtækja.

Magnús fjallaði um sögu fyrirtækisins og framtíðarhorfur. Hann sagði að Íslendingum hefði tekist að vinna sig út úr fátækt til bjargálna á undraskömmum tíma og beislun orkuauðlinda landsins hefði þar skipt höfuðmáli. Orkumarkaðurinn á Íslandi hefði tekið stakkaskiptum, bæði vegna breytinga á lögum og reglum um skipulag raforkumarkaðar sem og breytinga er varða áherslur í umhverfismálum. Ýmsar áskoranir væru framundan í rekstri og þróun verkefna í raforkuvinnslu.

Að mati Magnúsar bendir ýmislegt til að nú sé komið að ákveðnum tímamótum, þar sem áhersla verði lögð á nýtingu núverandi innviða og auðlinda, frekar en mikla nýja uppbyggingu. Markmiðið hljóti að vera að hámarka arð þjóðarinnar af auðlindum sínum.

Magnús Árni sagði að stórstígar tækniframfarir, bæði í vinnslu og nýtingu orku fælu í sér jafnt ógnanir sem tækifæri. Aukin nýting raforku, t.d. í samgöngum, yki eftirspurn á sama tíma sem nýjar leiðir við framleiðslu og aukin hagkvæmni við nýtingu drægju úr henni. Miklar framfarir í framleiðslu raforku með umhverfisvænum orkugjöfum gætu einnig haft áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra orkuframleiðslufyrirtækja í framtíðinni.

Fyrirkomulag mikilvægt fyrir auðlindaarð

Í erindi Gunnars kom fram að fyrirkomulag markaða við framleiðslu og sölu orku hefði mikið að segja varðandi hagkvæmni og myndun auðlindaarðs. Hagkvæmni stórrekstrar, eignarhald auðlinda, sem og eignarhald orkuframleiðslufyrirtækja, dreifingaraðila, fyrirkomulag heildsölumarkaða og smásölumarkaða skiptu máli í því samhengi. Opinbert eignarhald, að meira eða minna leyti, á stærstu orkuframleiðslufyrirtækjum í löndunum í kringum okkur, væri regla frekar en undantekning.

Gunnar sagði að væri rétt á málum haldið benti flest til að nýting íslenskra orkuauðlinda gæti haft í för með sér myndun auðlindaarðs og gæti sá arður orðið töluverður í þjóðhagslegu samhengi. Fjölmargar spurningar vöknuðu um hvernig best væri að verja slíkum auðlindaarði. Í því samhengi væri mikilvægt að horfa til hagsmuna alls almennings.

Að mati Gunnars er ekki sjálfgefið að þjóðhagslegra hagsmuna sé best gætt með sem lægstu orkuverði eða aukinni samkeppni hvað varðar sölu orku til erlendra aðila. Færa megi rök fyrir því að heppilegt sé að líta á íslenska raforkumarkaðinn með tvennum hætti, annars vegar stóriðjumarkað og hins vegar innlendan heildsölu- og neytendamarkað.

Gunnar sagði að um leið og tryggja þyrfti hagkvæmni í framleiðslu og dreifingu á raforku, sem og hagkvæmustu nýtingu orkuauðlindanna, þyrfti einnig að taka tillit til alþjóðlegrar samkeppnisstöðu íslensks raforkuiðnaðar. Hið þjóðhagslega markmið hlyti að vera að hámarka arð af orkuauðlindunum. Hvernig þeim arði væri síðan dreift til þjóðarinnar væri annað úrlausnarefni.

Gunnar sagði að fjölmörg dæmi væru um erlenda fullveldissjóði, tengda auðlindum, en sjaldan endurnýjanlegum auðlindum. Ekki væri síður hægt að færa rök fyrir sjóðum sem byggðu á arði af endurnýjanlegum auðlindum en óendurnýjanlegum.

Yfirleitt fjárfestu slíkir sjóðir að mestu erlendis, sem dreifði áhættu og kæmi í veg fyrir neikvæð áhrif á hagstjórn. Þar sem vel hefði tekist til hefðu þeir stutt við góða stjórnarhætti í fyrirtækjum og dregið úr freistnivanda í rekstri þeirra.

Að sögn Gunnars fer stærð auðlindasjóðs eftir ýmsum breytilegum þáttum, en hann gæti orðið verulega stór í þjóðhagslegu samhengi. Hann líkti mögulegum slíkum sjóði hér á landi við sýndarvirkjun, sem færði þjóðinni arð til langrar framtíðar og væri því afar mikilvægur fyrir íslensku þjóðina.

Alþjóðleg samkeppni íslenskra orkufyrirtækja

Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar Landsvirkjunar, fjallaði um alþjóðlegt samkeppnisumhverfi raforkufyrirtækja. Hann sagði að skipta mætti raforkumarkaðnum á Íslandi í tvo aðskilda markaði: alþjóðlegan stórnotendamarkað og innlendan almennan smásölumarkað fyrir heimili og atvinnulíf. Helsti munurinn á þessum mörkuðum væri að íslensk orkufyrirtæki væru í samkeppni við erlend orkufyrirtæki um viðskipti stórnotenda og því mætti segja að þar kepptu íslensku fyrirtækin á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Starfsumhverfi Landsvirkjunar og annarra evrópskra orkufyrirtækja markaðist af evrópskri löggjöf, sem tryggði samkeppni milli orkufyrirtækja á viðskiptalegum forsendum, til hagsbóta fyrir samfélagið.

Valur sagði að núverandi og tilvonandi stórnotendur á Íslandi hefðu flestir starfsemi víða um heim og bæru stöðugt saman kosti og kjör á Íslandi við það sem byðist á öðrum mörkuðum. Einn skýr kostur Íslands væri hreinleiki íslensku raforkunnar og legðu stórnotendur sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar með því að velja Ísland fram yfir aðra kosti þar sem raforka væri unnin úr mengandi orkugjöfum.

Valur sagði að stórnotendahópurinn á Íslandi hefði breyst og stækkað síðast áratuginn. Sögulega hefðu starfað á Íslandi stórnotendur úr ál- og kísiliðnaði sem treystu á langtímasamninga, þyrftu mikla raforku strax í upphafi reksturs og hefðu mjög fyrirsjáanlega notkun. Með tilkomu nýrri, minni og kvikari stórnotenda í kísil- og gagnaversiðnaði hefðu íslensk raforkufyrirtæki þurft að bregðast við með fjölbreyttara framboði raforkusamninga.

Mikil tækifæri og breytingar

Dagný Ósk Ragnarsdóttir, sérfræðingur á viðskiptagreiningu Landsvirkjunar, fjallaði um tækifæri og breyttar aðstæður á markaði fyrir raforku í heiminum. Nýjustu stórnotendur raforku á Íslandi væru gagnaver, sem færi almennt fjölgandi í heiminum samhliða hraðri aukningu í notkun gagna. Á Norðurlöndunum hefði gagnaversiðnaðurinn verið í mikilli sókn og hefðu fyrirtæki á borð við Facebook, Google og Amazon valið að staðsetja gagnaver sín þar. Að mati Dagnýjar er Ísland í góðri stöðu til að vera hluti af þessari spennandi þróun.

Dagný sagði að til viðbótar við hefðbundna vinnslu raforku kæmu aðrir orku- og efnastraumar frá jarðvarmavirkjunum landsins, á borð við ferskt vatn, varma, affallsvatn og gas sem nýta mætti í ýmiskonar nýsköpun og vöruþróun. Dæmi um starfsemi eða framleiðslu í slíkra fjölnýtingu væru gróðurhús, rafeldsneyti, heilsulindir, fæðubótarefni og margt fleira. Á þennan hátt tækist að nýta orkuauðlindir landsins betur og skapa aukin verðmæti.

Mikil ábyrgð

Að loknum framsöguerindum fóru fram pallborðsumræður undir stjórn Signýjar, með þátttöku Magnúsar Árna, Gunnars og Stefaníu G. Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar. Þar sagði Stefanía m.a. að mikil ábyrgð fylgdi því að reka orkuvinnslufyrirtæki á borð við Landsvirkjun. Eins og frumkvöðlarnir, sem stóðu að stofnun fyrirtækisins fyrir rúmum 50 árum, yrðu núverandi starfsmenn að halda áfram að koma auga á tækifærin, með hag komandi kynslóða í huga. Viðfangsefnið væri að hámarka arðinn af nýtingu orkuauðlindarinnar og það yrði að útfæra á mismunandi hátt miðað við umhverfi og aðstæður. Hún sagði enn fremur að ekki væri sjálfgefið að vera með áreiðanlega og trausta viðskiptavini, líkt og raunin hefði verið fram að þessu. 80% raforkunnar væru seld til alþjóðlegra fyrirtækja sem standa sig vel. Markmiðið væri að halda áfram á þeirri braut, að hafa trausta og áreiðanlega viðskiptavini.

Fréttasafn Prenta