Við erum bakhjarlar Snjallræðis

11.12.2020Samfélag

Við erum einn bakhjarla Snjallræðis, átta vikna viðskiptahraðals sem hefur göngu sína 1. febrúar. Snjallræði einblínir á samfélagslegar lausnir og horfir sérstaklega til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Opið er fyrir umsóknir til 17. janúar á vefsíðunni snjallraedi.is.

Landsvirkjun er einn bakhjarla Snjallræðis, átta vikna viðskiptahraðals sem hefur göngu sína 1. febrúar. Snjallræði einblínir á samfélagslegar lausnir og horfir sérstaklega til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Opið er fyrir umsóknir til 17. janúar á vefsíðunni snjallraedi.is

Allt að átta frumkvöðlateymi verða valin til þátttöku í Snjallræði, en hraðallinn fer nú fram í þriðja sinn. Þær lausnir, sem Snjallræði er ætlað að styðja við, geta snúið að heilbrigðisþjónustu og vellíðan, bættu menntakerfi, endurnýtanlegri orku, samgöngumálum og matarsóun, svo dæmi séu tekin. Þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar og fundi með fjölda leiðbeinenda úr atvinnulífinu.

Viðskiptahraðallinn er ætlaður fyrir frumkvöðla sem vilja leiða mikilvægar samfélagslegar breytingar. Hann snýst um að hanna sprotafyrirtæki sem huga betur að þörfum fólks og umhverfis og byggir á aðferðafræði MIT designX. Hvert frumkvöðlateymi sem verður fyrir valinu hlýtur 500 þúsund kr. styrk til þess að þróa hugmyndina áfram.

„Við erum stolt að styrkja Snjallræði núna, líkt og undanfarin ár,“ segir Ríkarður Ríkarðsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun. „Oft hefur verið þörf en nú er mikil nauðsyn að leita nýrra leiða til jákvæðra, samfélagslegra breytinga. Við hlökkum til að sjá afrakstur Snjallræðis, enda tókust fyrri viðskiptahraðlarnir mjög vel.“

Að Snjallræði koma sérfræðingar frá MIT designX, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Að verkefninu stendur Höfði friðarsetur en auk háskólanna eru samstarfsaðilar Reykjavíkurborg, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð, Össur, Deloitte og Marel, að ógleymdri Landsvirkjun. Framkvæmd er í samstarfi við Icelandic Startups.