Við þurfum að gera miklu betur

28.09.2020Orka

"Við Íslendingar höfum alla burði til þess að fara hraðar í þessi orkuskipti en aðrar þjóðir,“ skrifar Hörður Arnarson forstjóri í meðfylgjandi pistli

Orkuþörf vegna fyrirsjáanlegra orkuskipta hefur verið töluvert til umræðu eftir ársþing Samorku á dögunum, þar sem niðurstaða könnunar um þá orkuþörf var kynnt. Í allra mestri einföldun snýst málið um hve mikið við þurfum af okkar grænu orku, þ.e. vatnsfalls-, vind- og jarðvarmaorku, til að geta hætt að nota bensín og dísil. Þetta er auðvitað ekki spurning um hvað okkur að gera, heldur hvað við að gera. Fyrir umhverfið og framtíðina og af því að við erum beinlínis skuldbundin til þess með samningum við aðrar þjóðir heims.

Allir sem þekkja til orkumarkaðarins vita, að samningar við stærstu viðskiptavini gera ráð fyrir að þeir geti leyst til sín mismikla orku, eftir aðstæðum. Stóriðjuver semur t.d. um ákveðna orku frá Landsvirkjun. Síðar getur staðan orðið sú að sá samningur sé ekki nýttur að fullu, þ.e. stóriðjan leysir e.t.v. til sín 85% af umsömdu magni, en ekki 100%. Það þýðir ekki að þau 15%, sem út af standa, séu laus til ráðstöfunar í hvert það verkefni annað, sem mönnum hugnast. Þau 15% eiga að vera til reiðu, kjósi fyrirtækið sem samdi um þau kaup að nýta sér alla orkuna. Að sama skapi er Landsvirkjun heimilt að skerða afhendingu orku til stórra viðskiptavina sinna til að tryggja alla starfsemi, sem krefst raforku, til dæmis ef vatnsbúskapur það árið er erfiður.

Margoft hefur komið fram, að allir stærstu kaupendur raforku semja til nokkuð langs tíma um orkukaup sín. Þeir eiga þar með kröfu til raforkunnar, hafa samið um að borga fyrir hana og fyrirtækið sem vinnur orkuna, til dæmis Landsvirkjun, hefur þar með skuldbundið sig til að vinna hana og afhenda. Það blasir við að sú orka getur aldrei orðið grunnur þeirra orkuskipta, sem þjóðin verður að ráðast í á næstu árum. Núna erum við að kljást við efnahagskreppu og samdrátt í eftirspurn, sem vonandi gengur sem fyrst til baka og þá blasir við annar veruleiki. Það sem ekki breytist er hins vegar sú staðreynd að áfram munum við þurfa að takast á við okkar ágætu viðskiptavini til að fá sanngjarnt orkuverð fyrir báða aðila, til að tryggja hag þeirra hér á landi um ókomin ár.

100 þúsund rafbílar nægja ekki

Orkuskiptahópur Samorku áætlar að fram til ársins 2030 þurfi útblástur frá samgöngum á landi að minnka um 21% miðað við hver hann var árið 2005. Frá 2005 hefur umferðin hins vegar aukist mikið og nú verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að frá og með deginum í dag verður losunin að minnka um 37%, ætlum við að ná markmiðum okkar árið 2030.

Þótt rafbílar verði orðnir 100.000 hér á landi árið 2030 mun það duga skammt, því þrátt fyrir þann árangur verður heildaraukning í losun um 34% frá viðmiðunarárinu 2005. Samkvæmt ítarlegri og faglegri greiningu Samorku koma 100.000 hreinorkubílar okkur þannig ekki einu sinni nálægt því að uppfylla skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamkomulaginu. Ástæðan er sú, að losun frá stórum bifreiðum hefur stóraukist og mun aukast áfram. Stórir flutningabílar og hópferðabílar aka mikið og sá akstur er á dísilolíu. Þar þarf að ýta verulega undir orkuskipti og því hefur verið varpað fram að áhrifaríkt gæti verið að gera það með afslætti á þungaskatti.

Heildarfjöldi fólksbíla, vörubíla og hópferðabíla mun aukast á næstu 10 árum samkvæmt eldsneytisspá. Stór hluti þeirra er ólíklegur til að vera knúinn á beinu rafmagni og verður því að fara á orkufrekara grænt eldsneyti, líkt og vetni eða metanól. Það sama á við um skipaflotann okkar og flugið. Markmið um 100.000 rafbíla er verðugt og við hjá Landsvirkjun vonum svo sannarlega að það náist fyrir 2030, en sú notkun samsvarar bara litlum hluta af því jarðefnaeldsneyti sem þarf að skipta út, fyrst til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og í öðru lagi til að klára orkuskiptin á Íslandi.

Við þurfum að gera svo miklu betur.

Ísland í kjöraðstöðu

Alla þá orku, sem við nýtum núna í formi jarðefnaeldsneytis, þurfum við að fá frá endurnýjanlegum orkugjöfum sem losa ekki gróðurhúsalofttegundir. Það er eina rökrétta niðurstaðan í ljósi þeirra hröðu og skaðlegu loftslagsbreytinga sem við stöndum frammi fyrir. Við Íslendingar höfum alla burði til þess að fara hraðar í þessi orkuskipti en aðrar þjóðir. Hér er hugvit, vilji, hrein orka og kannski mikilvægasti styrkleikinn okkar: Ekkert innlent jarðefnaeldsneyti.

Við neyðumst beinlínis til að fara í orkuskiptin á landi, sjó og í flugi vegna loftslagsbreytinganna. Við eigum hins vegar að taka því fagnandi, því þessi orkuskipti hafa líka í för með sér gjaldeyrissparnað, atvinnusköpun og alla þá nýsköpun sem orkuskiptum fylgir. Framtíðin í orkumálum er björt og það er leitun að þjóð sem stendur þar betur að vígi. Bæði til þess að ná árangri í loftlagsmálum og skapa verðmæti fyrir samfélagið.