Frétt

Viðgerð á Sultartangaskurði hafin

11. júní 2019

Hafnar eru viðgerðir á frárennslisskurði Sultartangastöðvar, sem miða að því að tryggja rekstraröryggi stöðvarinnar. Skurðurinn var grafinn á árunum 1997-1999 og farið er að bera á skemmdum sem þarfnast viðgerðar. Í tengslum við framkvæmdirnar verður byggð ný brú yfir skurðinn, skammt frá núverandi brú sem verður fjarlægð.

Á árinu 2015 var gerð sérstök úttekt á ástandi skurðarins og komu þá í ljós töluverðar skemmdir á skurðbökkum á um 250 metra kafla ofan við, undir og neðan núverandi brúar. Í júlí 2016 var ráðist í viðgerðir á skurðinum, grafnir 18 metra breiðir stallar í skurðbökkum á um 200 metra kafla, bakkar undir brú styrktir með bergboltun og skurðbotn hreinsaður. Aðgerðunum lauk tímabundið í apríl 2017, án fullnaðarviðgerða.

Nú er talið brýnt að ráðast í fullnaðarviðgerð á skurðinum og ljúka viðgerðum á skurðbökkum til þess að tryggja rekstraröryggi Sultartangastöðvar.

Ný brú tryggir rekstraröryggi

Aðferðin sem beitt var við viðgerðina 2016-2017 gafst vel, en henni er þó ekki hægt að beita á svæðinu í kringum brúna. Til þess að koma við viðgerðum á því svæði með brúna á sínum stað hefði verið nauðsynlegt að tæma skurðinn og stöðva rekstur stöðvarinnar á meðan. Í ljósi þess hve Sultartangastöð er mikilvæg í orkukerfi Landsvirkjunar hefði það hins vegar að öllum líkindum leitt til vinnslutaps og takmörkunar á afhendingu orku til viðskiptavina, miðað við fullselt kerfi eins og kerfi Landsvirkjunar er í dag.

Athuganir á valkostum til viðgerða á skurðinum, sem til greina komu, leiddu í ljós að hagkvæmast og öruggast væri að byggja nýja brú skammt norðan við núverandi brú og fjarlægja núverandi brú síðan í framhaldinu. Með þessu verður unnt að gera við allar skemmdir á skurðinum með sömu aðferð og beitt var á árunum 2016-2017 og án þess taka Sultartangastöð úr rekstri nema í stuttan tíma. Áhætta tengd þessari framkvæmd er jafnframt talin vera mun minni en áhætta sem myndi fylgja því að tæma skurðinn og gera við skemmdir undir núverandi brú með hana á sínum stað. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki á árinu.

Fréttasafn Prenta