Frétt

Virkjanakostir í neðri hluta Þjórsár

17. desember 2013

Verkefnisstjórn rammaáætlunar skilar drögum að tillögu að flokkun virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár

Með auglýsingu, dagsettri þann 6. desember 2013, óskaði verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar eftir athugasemdum við drög að tillögu sinni að flokkun virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár. Samkvæmt drögunum leggur verkefnisstjórnin til að Hvammsvirkjun verði færð í orkunýtingarflokk en að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun verði áfram raðað í biðflokk.

Að mati verkefnisstjórnar þurfa að liggja fyrir upplýsingar um eftirfarandi atriði til að hægt sé að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar:

  • Markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskistofna.
  • Eftirlits- og viðbragðáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð.
  • Skilgreining á því hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsárkvísl neðan við Búða og í Murneyrarkvísl.

Landsvirkjun styður eindregið að Hvammsvirkjun sé raðað í orkunýtingarflokk en gerir athugasemdir við að slíkt sé ekki einnig gert varðandi Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.  Landsvirkjun telur mikilvægt að hlutverkaskipting á milli ramma­áætlunar, mats á umhverfisáhrifum framkvæmda og veitingu virkjunarleyfis og annarra leyfa sé skýr. Hvað rammaáætlun varðar þurfa gögn að vera nægjanleg til að unnt sé að bera saman mismunandi virkjunarkosti á ólíkum svæðum sem geta verið á mismunandi undirbúningsstigi.  Þau gögn sem lögð hafa verið fram vegna Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar eru vel umfram þær kröfur sem gerðar eru til umfjöllunar í rammaáætlun enda mati á umhverfisáhrifum lokið fyrir þær virkjanir.

Athugasemdir Landsvirkjunar við drög að tillögu að flokkun virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár eru aðgengilegar í heild sinni hér.

 

 

Fréttasafn Prenta