Frétt

Welcome to the land of renewable energy

22. janúar 2016

Landsvirkjun setur upp nýtt auglýsingaskilti í flugstöð Leifs Eiríkssonar

Landsvirkjun hefur látið setja upp nýtt auglýsingaskilti í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í fyrirsögninni, Welcome to the land of renewable energy, er vísað til þess að á Íslandi eru aðstæður til endurnýjanlegrar orkuvinnslu einstakar. Bent er á að hér á landi sé rafmagn unnið úr þremur endurnýjanlegum orkugjöfum sem Íslendingar eru svo lánsamir að hafa aðgang að: vatni, jarðvarma og vindi. Eru ferðamenn hvattir til að heimsækja orkusýningar Landsvirkjunar.

„Við tökum á móti fjölda erlendra ferðamanna og verðum vör við mikinn áhuga þeirra og ánægju með árangur Íslendinga í orkumálum. Ímynd hinnar hreinu og endurnýjanlegu orku er samofin ímynd Íslands og við viljum bjóða þá velkomna á orkusýningar okkar,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Samstarf orkuiðnaðar og ferðaþjónustu hefur verið farsælt og full ástæða er til að telja að uppbygging ferðaþjónustu og orkuiðnaðar muni áfram geta orðið í góðri samvinnu, til hagsbóta fyrir báðar atvinnugreinar og Ísland.

Aðgengi og aðstaða sem fylgt hafa orkuframkvæmdum hafa verið ferðaþjónustunni lyftistöng. Þegar aflstöðvar hafa verið reistar njóta þær, og tengdur rekstur, gjarnan vinsælda hjá ferðamönnum. Góð dæmi um þetta eru Bláa lónið, jarðböðin í Mývatnssveit, Hellisheiðarvirkjun, orkusýningin í Reykjanesvirkjun og gestastofur Landsvirkjunar í Ljósafossstöð, Búrfellsstöð, Kröflustöð og sjálf Kárahnjúkastífla. Heimsóknir erlendra gesta á þessa staði skipta hundruðum þúsunda á ári hverju.

Jákvætt viðhorf erlendis hefur verið staðfest með viðhorfskönnun sem Iceland Naturally gerði á meðal almennings í Bandaríkjunum á síðasta ári. Í könnuninni töldu 67% aðspurðra að notkun Íslendinga á endurnýjanlegum orkugjöfum yki áhuga þeirra á Íslandi og vörum frá Íslandi. 49% töldu að endurnýjanleg orka Íslendinga yki talsvert líkurnar á því að þeir ferðuðust til Íslands.

Undanfarin ár hefur auglýsingaskilti frá Landsvirkjun verið staðsett í landgangi flugstöðvarinnar. Kominn var tími á að uppfæra skiltið og hefur nýja skiltið verið sett upp við hlið 3 í landganginum. Gera má ráð fyrir að ríflega 6,2 milljónir manna komi til með að berja það augum á ferðum sínum árið 2016. Myndin á skiltinu er eftir ljósmyndarann Marinó Thorlacius og var tekin við Kárahnjúkastíflu í október 2015. Á skiltinu sést fossinn Hverfandi, sem myndast þegar Hálslón rennur á yfirfalli, þar sem hann steypist ríflega 100 metra niður í Hafrahvammagljúfur.

Nánari upplýsingar um orkusýningar Landsvirkjunar

Fréttasafn Prenta