Landsvirkjun

Stækkun Búrfellsvirkjunar mun hámarka nýtingu rennslis Þjórsár við Búrfell. Núverandi nýting rennslisorku við Búrfellsstöð er um 86% og talið er að um 410 GWst renni að jafnaði fram hjá stöðinni á ári hverju.

Ný stöð verður staðsett neðanjarðar í Sámsstaðaklifi en vatn til stækkunar virkjunarinnar verður tekið úr inntakslóni núverandi Búrfellsvirkjunar (Bjarnalón). Lónið auk veitumannvirkja eru nú þegar til staðar og hluti af núverandi Búrfellsvirkjun. Úr inntakslóni verður grafinn um 370 m langur aðrennslisskurður fram undir brún Sámsstaðaklifs að stöðvarinntaki. Frá stöðvarinntaki fellur vatnið niður um 110 m löng fallgöng að stöðvarhúsi og þaðan er vatninu síðan veitt um 450 m löng frárennslisgöng út í 2,2 km langan frárennslisskurð sem leiðir það út í Fossá um 1 km neðan við núverandi stöð.

Uppsett afl nýrrar stöðvar er 100 MW með einni vél en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW. Með stækkun Búrfellsvirkjunar má auka orkugetu raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Kemur það til bæði vegna aukinnar nýtingar á rennsli og vegna minnkaðra falltapa í núverandi stöð þegar álag er fært af henni yfir á nýju stöðina. 

 

Helstu kennistærðir

6.400
Vatnasvið með veitum (km²)
370
Lengd aðrennslisskurðar (m)
110
Lengd fallpípu (m)
2.220
Lengd frárennslisskurðar (m)
119,2
Virkjað fall (m)
92
Virkjað rennsli (m³/s)
100
Afl (MW)
300
Orkugeta (GWh/ári)

Staða verkefnis

Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar hófust vorið 2016 og er áætlað að virkjunin verði tekin í notkun vorið 2018. Verkís sá um hönnun virkjunarinnar og eru byggingaframkvæmdir í höndum samsteypu fyrirtækis (joint venture) Íslenskra Aðalverktaka, Marti Contractors og Marti Tunnelbau. Verkeftirlit á staðnum er í höndum Landsvirkjunar en Mannvit kemur að eftirliti með byggingarframkvæmdum. Vél- og rafbúnaður verður framleiddur af Andritz Hydro og lokur og þrýstivatnspípa af DSD-NOELL.

Skipulags- og leyfismál

Framkvæmdarhugmyndin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar vorið 2013 og var niðurstaða stofnunarinnar að stækkun Búrfellsvirkjunar um allt að 140 MW sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Vegna fyrirhugaðar stækkunar Búrfellsvirkjunar óskaði Landsvirkjun eftir breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016 sem var staðfest af Skipulagsstofnun og samþykkt í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 4. mars 2015.

Öryggis- og umhverfismál

Við stækkun Búrfellsvirkjunar er rík áhersla er lögð á öryggismál og slysalaus starfsemi höfð í fyrirrúmi. Áður en starfsmenn hefja vinnu á verkstað þurfa þeir að sitja námskeið í öryggis- og umhverfismálum sem haldið er af öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa Landsvirkjunar á staðnum. Af öryggisástæðum verður aðgengi að svæðinu takmarkað yfir framkvæmdatímann. Aðgangur ferðamanna er óheimill en lögð er áhersla á að koma til móts við íbúa í nærsamfélaginu og aðra sem nauðsynlega þurfa að komast um svæðið (hægt er að hafa samband við staðarverkfræðing í síma 515 9000).  

Umhverfisstefnumið verkefnisins miða að því að lágmarka röskunum á umhverfið og umhverfisspor framkvæmdasvæðis. Framkvæmdasvæðið hafði að mestu verið raskað við upphaf framkvæmda. Annars vegar var um að ræða svæði sem raskað var vegna byggingar Búrfellsvirkjunar á sínum tíma og hins vegar vegna þeirra framkvæmda sem farið var í vegna fyrri áforma um stækkun virkjunarinnar. Öll veitumannvirki ásamt inntakslóni fyrir stækkun Búrfellsstöðvar eru hluti af núverandi Búrfellsstöð auk vegagerðar að framkvæmdasvæðinu. Þá er allt athafnasvæði vegna vinnubúða, steypustöðvar og verkstæða sem fyrirhugað er að nota vegna stækkunarinnar það sama og notað var vegna byggingar stöðvarinnar í upphafi. Frárennslisskurður hafði þegar verið grafin að stórum hluta (1,4 milljón m³ af um 1,9 milljón m³) og var uppgreftri að hluta komið fyrir á svæðinu meðfram skurðinum. Verðmæt jarðefni, s.s mold og svarðlag, verða endurnýtt og gerð er krafa um flokkun sorps í mötuneytum, vinnubúðum og skrifstofum. Tryggt hefur verið að engin röskun verði á náttúrulegum birkiskógi/landnámsskógi og menningarminjum á svæðinu með afmörkun, samráði og upplýsingagjöf.

Neðanjarðar stöð

Á hönnunarstigi voru undirbúnar tvær virkjunartilhaganir. Annars vegar að staðsetja stöðvarhúsið neðanjarðar í Sámsstaðaklifi og hins vegar ofanjarðar við rætur Sámsstaðaklifs. Ofangreindir valkostir voru bornir saman og var niðurstaðan sú að tækni-, framkvæmdar- og kostnaðarlega voru valkostirnir metnir jafngildir.

Ákveðið var að velja neðanjarðarkostinn en umhverfisáhrif hans voru metin minni og rekstrarkostnaður áætlaður lægri.

Skýrslur og rannsóknir

Sögulegt yfirlit stækkunaráforma

Fyrstu áætlanir um stækkun Búrfellsvirkjunar eru frá því um 1980.  Fýsilegast þótti að byggja stöðvarhús í Sámsstaðaklifi. Hönnun gerði ráð fyrir nýjum aðrennslisskurði á toppi Sámsstaðaklifs, pípu niður hlíðina að stöðvarhúsi með tveimur 70 MW vélum og svo 2 km löngum frárennslisskurði með útrás í Fossá um 1 km neðan við Búrfellsstöð.

Árið 1981 var byrjað á framkvæmdum vegna stækkunar með greftri frárennslisskurðarins með hjálp dælupramma. Sumrin 1981 til 1985, 1988 og 1989 voru fjarlægðir um 1,4 milljón m³ af lausum jarðefnum úr skurðstæðinu m.a með því að fleyta vatni úr Bjarnalóni niður skurðinn. Að auki var fyrirhugað svæði fyrir vinnubúðir verktaka undirbúið og vegir og aðkomuvegur lagfærður.

Með bréfi dagsettu 4. desember 1991 veitti þáverandi iðnaðarráðherra leyfi til stækkunar Búrfellsvirkjunar í allt að 310 MW afl ásamt tilheyrandi flutningslínum og aðveitustöðvum.

Á árunum 1990‐1994 var unnið að frekari undirbúningi og hönnun og voru vél‐ og rafbúnaður fyrir virkjunina boðin út, en þá var miðað við að virkjunin yrði 100 MW. Unnið var að útboðum á jarðvinnu og allri byggingarvinnu. Á þessum tíma var unnið að undirbúningi að stækkun álversins í Straumsvík og var stækkun Búrfellsstöðvar einn af þeim kostum sem til greina komu vegna orkuöflunar. Verkefnið var sett í biðstöðu árið 1994 og þess í stað ákveðið að fara í aflaukningu stöðvarinnar ásamt því að stækka Blöndulón og byggja 5. áfanga Kvíslaveitu vegna stækkunar álversins. Ástæða þess að hætt var við stækkun Búrfellsstöðvar er að þessi kostur var ekki talin eins hagkvæmur á þeim tíma og ofangreindir kostir.  

Staðsetning

Kort af svæðinu