Grein

Birna Björnsdóttir, stöðvarstjóri á Blöndusvæði

9. október 2020

„Ég var svo mikið í harðkjarnanum þegar ég var yngri,“ segir Birna Björnsdóttir, stöðvarstjóri á Blöndusvæði. „Ég var alltaf í Hinu húsinu á föstudögum að slamma,“ heldur hún áfram. Þetta var í kringum aldamótin og Birna fór mikinn í harðkjarnasenunni á þessum tíma, fór til að mynda á Hróarskeldu fjórum sinnum, meðal annars til að blóta harðkjarnagoðin. „Ég var mjög hrifin af Mínus, Andláti og Bisund, af þessum íslensku,“ segir hún við spyril án þess að útskýra nánar hvað þessi hugtök þýða.  En hvað var það við harðkjarnatónlist sem heillaði hana? „Ég veit það ekki, kannski bara félagsskapurinn og útrásin sem maður fékk. Ég er nú meira fyrir svona indí-tónlist núna, en reyndar finnst mér öll tónlist yndisleg,“ segir hún.

Þegar spyrill forvitnast um æsku hennar og uppvöxt segir Birna: „Það er alveg ástæða fyrir því að ég er jafn skrítin og ég er. Ég fæddist og ólst upp á Höfn í Hornafirði til tíu ára aldurs og færði mig þá í efra Breiðholtið, þar sem ég tók framhaldsskólann. Ákvað að fara á upplýsingatæknibraut í FB, sem þá var nýstofnuð, án þess að hafa nokkru sinni kveikt á tölvu nema til þess að spila Solitaire, alltaf til í prófa eitthvað nýtt. Ég tók textílhönnun með, þannig að þegar ég útskrifaðist var stóra spurningin hvort ég ætti að verða rafmagnstæknifræðingur eða prjónakona,“ segir hún og kímir.

Hún endaði hins vegar í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og vann með því námi á vöktum í álverinu í Straumsvík, sem þá var í eigu Alcan, og á hjúkrunarheimilum aldraðra á veturna. Hún útskrifast úr háskólanum árið 2008 og þá stóð til að fara í meistaranám. „En þetta var rétt fyrir hrun, þannig að vegna aðstæðna réði ég mig til Norðuráls og var þar í fjögur ár, þar til ég ákvað að fara að læra framleiðslustjórnun í háskólanum í Porto í Portúgal,“ segir hún.

Hvernig var sú lífsreynsla? „Hún var svolítið skemmtileg og gaman að upplifa Portúgal. Þetta voru töluverð viðbrigði, auðvitað. Það var til dæmist töluvert framandi að koma í háskólann og mæta nemendum sem voru í skólabúningunum úr Hogwarts-skólanum í Harry Potter. Þá var skýringin sú að Hogwarts-búningarnir voru byggðir á búningum félags í skólanum. Í fyrsta skiptið sem ég mætti í skólann fékk ég pínu áfall og spurði sjálfa mig: „Bíddu, hvert er ég eiginlega komin? Er ég lent í upptökum á nýrri Harry Potter-mynd?“ En þetta var mjög skemmtilegur tími og mjög ólíkur því sem maður hafði áður reynt. Ég átti til að mynda mjög erfitt með það að fólk mætti bara tuttugu mínútum of seint í tíma eins og ekkert væri sjálfsagðara. „Hvernig er þetta eiginlega hægt? Hvernig fúnkerar þessi þjóð?“ spurði Íslendingarinn sig. En það er allt annað tempó þarna en hér heima,“ segir hún.

Birna kom heim úr náminu árið 2014. „Þá langaði mig til þess að prófa eitthvað nýtt og réði mig sem gæðastjóra Matvælastofnunar,“ segir hún og flissar. „Ég er semsagt vottaður innri úttektaraðili matvælaframleiðslu frá Evrópusambandinu,“ segir hún. „En það var nú svona fullrólegt fyrir minn smekk. Mikið skrifstofustarf,“ segir Birna.

Hún flutti sig því um set eftir eins og hálfs árs starf hjá Matvælastofnun, gengin sjö mánuði á leið með son sinn, og réði sig sem framleiðslustjóra Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum og flutti þangað, í hundrað manna bæ. Var ekkert erfitt að hefja nýtt starf á þriðja þriðjungi meðgöngu? „Ég mæli nú svosem ekkert með því að vera í fullu starfi með barn á brjósti, en þetta var skemmtilegt starf engu að síður,“ segir hún, „en svo skildum við fyrrverandi maðurinn minn um ári seinna og þá var kannski svolítið erfitt að vera einstæð, svona langt í burtu frá öllu stoðneti og stórmörkuðum,“ segir hún. Hún var þó ekkert á því að flytja til höfuðborgarinnar, heldur tók sig upp og flutti á Húsavík. „Það var algjör lúxus að hafa allt í einu bakarí og búð með fersku grænmeti. Svo býr systir mín spölkorn í burtu, á Akureyri, sem skipti líka máli,“ segir hún.

Þetta var árið 2017 og þá hóf hún störf hjá PCC BakkaSilicon,  fyrst sem gæða- og straumlínusérfræðingur og síðan sem framkvæmdastjóri kísilframleiðslu. Þar vann hún allt þar til hún byrjaði hjá okkur í Landsvirkjun, sem stöðvarstjóri á Blöndusvæði, um síðustu áramót. Var ekki eilítið skrítið að koma inn á þessum tíma? „Já, ég kom bara beint inn í óveður og Covid, takk fyrir. Ég var til dæmis búin að vinna með einum samstarfsmanni í sex mánuði áður en við hittumst loksins augliti til auglitis. Þetta hafa verið undarlegir tímar, en maður lærir bara að lifa með þessu. Það hjálpar svo upp á sakirnar að Landsvirkjun á alveg ótrúlega gott starfsfólk. Það er svo auðvelt að tala við alla og fá alla þá aðstoð sem mann vantar. Allir af vilja gerðir að hjálpa. Það er afskaplega verðmætt og það hefur gert þennan aðlögunartíma svo miklu auðveldari en ella,“ segir hún. „Ég er ennþá að læra og ég hugsa að ég verði áfram að læra í nokkur ár, enda er þetta ansi frábrugðið því sem ég hef gert áður,“ segir Birna.

Er Birna með einhver áhugamál, svona fyrir utan fjölskylduna? „Sko, já já. Ég hef gaman af svo mörgu. Ég hjóla þegar mig langar að hjóla, lagði mínum 27 ára fáki á dögunum sem ég fékk þegar ég var tíu ára og keypti mér nýtt hjól. Ég skokka – ég get ekki sagt að ég hlaupi og myndi ekki segja að tíminn minn væri af sama kalíberi og hjá mörgum öðrum, en mér finnst það gaman. Ég var í fótbolta þegar ég var yngri og finnst það ennþá gaman. Ég púsla, les mikið bækur, hlusta mikið á hlaðvörp. Ég er ekki með græna fingur, þótt ég sé stanslaust að reyna – eftir mig liggur grænku drifin slóð sálugra pottaplantna, en ég er ekki búin að gefast upp,“ segir hún. „Mér finnst gaman að borða, en stundum löt að elda. Mér finnst skemmtilegt að syngja, en myndi ekki gera öðrum það að þurfa að sitja undir þeim ósköpum. Ég held að það megi súmmera þetta upp með því að segja að ég hafi gaman af öllu en sé ekki góð í neinu,“ segir hún og hlær dátt.

Áhugi þinn á textílhönnun og harðkjarnatónlist, gefur hann ekki tilefni til að ætla að á í þér takist þessir tveir þræðir, verkfræðin og listir? „Nei, ég myndi nú ekki segja að ég væri mjög fær listakona. Ég var miklu duglegri við að dútla mér í sköpuninni þegar ég var yngri, en ég er að reyna að byrja aftur núna. Það tekur alveg nokkra stund að rifja upp gamla takta,“ segir hún.

Birna býr sem fyrr segir ásamt fjölskyldu sinni á Húsavík. „Ég flutti hingað og keypti mér hús sem heitir Grafarbakki, og ætla mér ekkert að fara af Grafarbakkanum. Ég held ég endi bara þar,“ segir hún sposk á svip. Með henni búa börnin hennar tvö, Jóhanna Iðunn tíu ára og Bergsteinn Norðfjörð sem er að verða fimm ára og kærastinn hennar, Bjarni Þór Bjarnason, en hann á einnig fjögur börn, þar af eitt stjúpson sem til skamms tíma bjó heima hjá þeim. „Þannig að ég er svona stjúp-stjúpmóðir hans. Þetta er sko alvöru nútímafjölskylda,“ segir hún og hlær. Börn Bjarna búa ekki á Grafarbakkanum, þannig að þar búa semsagt tveir fullorðnir, tvö börn og svo tveir kettir sem hafa samanlagt átján líf, þannig að þeir detta ekki af Grafarbakkanum svo auðveldlega, svo spyrill haldi áfram að mála sig út í horn í grafarbakkapælingum.

Fréttasafn Prenta