Grein

Brynhildur Magnúsdóttir, sumarstarfsmaður

28. ágúst 2020

Kraftlyftingar eru aðaláhugamál Brynhildar Magnúsdóttur, 27 ára sumarstarfsmanns á skrifstofu forstjóra. Hvernig kom til að hún hóf að stunda þessa erfiðu tómstundaiðju? „Það má segja að ég hafi fetað í fótspor foreldra minna þegar kemur að líkamsrækt. Fyrst byrjaði ég að stunda langhlaup eins og pabbi, sem er mikill hlaupari og hefur klárað mörg maraþon. Svo langaði mig til þess að styrkja mig og þá lá beinast við að fylgja fordæmi mömmu, sem hefur stundað kraftlyftingarnar af mikill elju. Ég mætti á æfingu og eftir það varð ekki aftur snúið. Þetta er bara eitt af því skemmtilegasta sem ég geri,“ segir hún.

Móðir Brynhildar er Ragna Árnadóttir, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og nú skrifstofustjóri Alþingis. Er metingur á milli þeirra mæðgna þegar kemur að árangri í íþróttinni? „Nei, alls ekki. Mamma er minn helsti stuðningsmaður. Staðan er alveg á hreinu og það er ekkert viðkvæmt mál hjá móður minni. Ég er komin langt fram úr henni. Þjálfarinn minn segir að ég sé aðalkraftlyftingamanneskjan í fjölskyldunni og mamma er bara mjög ánægð fyrir mína hönd. Líka pabbi, sem er kominn í þetta á fullu,“ segir Brynhildur. „Í fyrra maxaði ég hundrað kíló í hnébeygju og mamma vildi bara koma með mér á æfingu til þess að hvetja mig áfram og taka afrekið upp á myndband,“ bætir hún við og hlær.

Stefnir ekki á keppnisferil í náinni framtíð
Aðspurð hvort hún hyggi á keppnisferil í kraftlyftingum segist Brynhildur vera á báðum áttum um það. Þjálfarinn hennar vilji frekar ýta henni í þá átt, „en af því að ég er búin að vera að einbeita mér að náminu að undanförnu hef ég ekki getað æft mig sem skyldi,“ segir hún. „En það er aldrei að vita hvað maður gerir í framtíðinni,“ bætir hún við.

Sumarið sem er að líða er annað sumarið hennar hjá Landsvirkjun. Hvernig hefur henni líkað að vinna hérna? „Alveg rosalega vel. Mér finnst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt umhverfi. Starfið mitt kallar á að ég eigi samskipti við svo margt fólk inni í fyrirtækinu, þannig að ég kynnist ýmsum flötum starfseminnar,“ segir hún. Brynhildur er í ýmsum tilfallandi verkefnum fyrir skrifstofu forstjóra. „Ég myndi lýsa þessu sem þúsundþjalastarfi. Ég hleyp inn í alls konar verkefni og redda hlutum,“ segir hún.

Skoðar stofna hávellu
Brynhildur er í meistaranámi í vistfræði og verndun við Uppsalaháskóla í Svíþjóð og á bara lokaverkefnið eftir. Það er rannsóknarverkefni, samstarfsverkefni milli Háskóla Íslands og Uppsalaháskóla, sem gengur út á að skoða stofna hávellu, sem er sjóönd. „Ég er að fara að bera saman erfðir stofnsins hér á Íslandi og annarra stofna, meðal annars í Svíþjóð. Það er fastur stofn hér við land, en þessari önd fer fækkandi í heiminum og markmið verkefnisins er m.a. að leita leiða til þess að vernda hana og forða frá frekari fækkun,“ segir hún. Á næstunni ætlar hún að safna sýnum hér á landi til að grannskoða og rannsaka, áður en hún snýr aftur til Svíþjóðar til að vinna úr gögnunum.

Ef allt fer að óskum útskrifast hún næsta vor. Hvað tekur þá við? „Það er allt opið. Ég ætla að klára masterinn og taka svo ákvörðun í rólegheitum,“ segir hún. Kærastinn hennar vinnur í Stokkhólmi og Brynhildur segir að það komi jafnvel til greina að vera þar áfram. „Það er svo rosalega næs að vera í Svíþjóð,“ segir hún, „veðrið er æðislegt og svo er Svíinn bara rosa fínn,“ segir hún að lokum.

Fréttasafn Prenta