Grein

Daði Sverrisson, sérfræðingur

21. ágúst 2020

Tvíeðli Daða Sverrissonar er yfir allan vafa hafið. Hann er hvort tveggja í senn: sérfræðingur á fjármálasviði Landsvirkjunar og mikilvirkur listamaður. Daði stundaði leiklist á yngri árum, hefur löngum sungið í kór og svo má í framhjáhlaupi nefna að hann er á meðal færustu píanóleikara þjóðarinnar. Það höfum við hjá Landsvirkjun orðið áþreifanlega vör við, þegar hann hefur haldið einleikstónleika í mötuneytinu hjá okkur á föstudögum, bara svona til að viðhalda fingrafiminni og halda sér á tánum.

Daði er af mikilli ætt listamanna. Móðir hans er Elín Edda Árnadóttir, búningahönnuður og myndlistarmaður og faðir hans er Sverrir Guðjónsson, kontratenór og listapródúsent. Bróðir hans er Ívar Sverrisson, sem hefur náð miklum frama í leiklistinni á Íslandi og í Noregi.

Hvernig var að alast upp í svona mikilli listafjölskyldu? „Það var rosalega fínt. Þetta var allt svo sveigjanlegt. Það má segja að ég hafi alist upp í leikhúsinu. Foreldrar mínir voru lítið að notast við dagforeldra, þannig að ég fékk að fylgjast með því hvernig leikverk voru sett upp, allt frá því að æfingar byrjuðu og að frumsýningu,“ segir Daði. Leiklistarferillinn byrjaði snemma, því mamma hans fór með hann sjö ára í prufur fyrir kórinn í uppfærslu Íslensku óperunnar á Tosca. Daði komst inn og eftir það var ekki aftur snúið. „Ég var síðan nokkuð reglulega að leika í Þjóðleikhúsinu og öðrum leikhúsum, svo lék ég í einhverjum auglýsingum og útvarpsleikriti, svo dæmi séu nefnd. Þetta olli því að maður átti alltaf pening sem krakki, sem var bara fínt,“ heldur hann áfram og brosir.

Það var mikill hvalreki fyrir Daða þegar hann var tólf ára og fékk hlutverk í metsöluuppsetningu Þjóðleikhússins á Ólíver Tvist. „Þá var þetta aðeins farið að vinda upp á sig. Bróðir minn, Ívar, var náttúrulega „leikarinn“ í fjölskyldunni og fékk alltaf aðalhlutverkin, á meðan ég fékk hin og þessi aukahlutverk. Það var þess vegna mikill sigur fyrir mig þegar ég komst að í Ólíver Tvist sem forfallaleikari fyrir titilhlutverkið, sjálfan Ólíver, sem Gissur Páll Gissurarson fór með,“ segir hann. Ívar bróðir hans fékk hlutverk Hrapps, sem er stórt, en ekki eins stórt og titilhlutverkið að sjálfsögðu. „Mér var treyst fyrir því að vera reiðubúinn til að stíga inn í, ef Ólíver skyldi veikjast eða slasast,“ segir Daði, sem fór annars með rullu eins meðlims strákagengisins í uppfærslunni.

Svo fór að Gissuri, sem síðan hefur náð miklum frama sem tenór og er m.a. þekktur fyrir að vera einn af Sætabrauðsdrengjunum glaðværu, varð ekki misdægurt á meðan á sýningum stóð. „Ég vil nú ekki vera fúll út í hann Gissur, en hver veit hvernig líf mitt hefði þróast ef hann hefði haft sómakennd til þess að melda sig veikan eins og eitt sýningarkvöld,“ segir Daði og hlær.

Daði hóf píanónám ungur að árum. „Foreldrar mínir sáu að það var nauðsynlegt að setja mig í einhvers konar tónlistarnám. Ég komst reyndar á sama tíma í ballettskólann, en ég valdi píanóið og sé ekkert eftir því. Píanónámið gekk alveg rosalega hratt og vel; ég rúllaði í gegnum öll stigin og var fljótlega farinn að spila frekar erfið verk,“ segir hann. Daði er með háskóladiplómapróf í píanóleik, en þegar hann útskrifaðist hafði Listaháskólinn ekki komið fram á sjónarsviðið sem fullgildur háskóli eins og hann er nú. Námið tók tvö ár eftir að áttunda stiginu hafði verið náð og hann kláraði það skömmu eftir að hann útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Árið 2000 tók hann svo þátt í keppninni Ungir einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og gerði sér lítið fyrir og bar sigur úr býtum með því að spila píanókonsert númer eitt eftir Sergei Prokofiev.

Sem fyrr segir var Daði leikari, í fullu píanónámi og auk þess hefur hann verið í kór frá barnæsku, meðal annars Melódíu og Hljómeyki. Hann tók þrjár brautir í Menntaskólanum í Hamrahlíð og útskrifaðist svo sem hagfræðingur frá Háskóla Íslands og fór til framhaldsnáms í Kanada, þar sem hann fékk meistaragráðu í umhverfis- og auðlindahagfræði. Hvernig í ósköpunum hefur hann farið að þessu, er þá spurning sem vaknar hjá spyrli. „Ætli lykillinn sé ekki að ég hef haft ofboðslega gaman af þessu öllu saman. Þegar ég var í námi var ég ekki mikið að sitja á bossanum í eyðum í stundartöflunni, heldur reyndi ég að nýta tímann eins vel og ég mögulega gat,“ segir hann. „Þetta var svo fjölbreytt og í svo fínu flæði einhvern veginn. Eiginlega áreynslulaust,“ segir hann. „Einhvern veginn var þetta þannig að því meira sem maður fékkst við, því betur gekk allt saman,“ segir hann.

Daði hélt á tímabili vikulega tónleika fyrir samstarfsmenn sína í Landsvirkjun. Sumir myndu segja að þú hafir þar verið að kasta perlum fyrir svín, segir spyrill á gáskafullan hátt. „Nei! Alls ekki,“ svarar Daði og hlær. „Þetta gerði ég til að fá ákveðið aðhald og markmið og byggja mig upp og halda við sem píanóleikara, því maður spilar einhvern veginn öðruvísi þegar maður veit að einhverjir eru að hlusta, jafnvel þótt þeir séu ekki margir. Þegar maður veit að einhver er að einbeita sér að tónlistinni með manni verður hún einhvern veginn öðruvísi,“ segir hann. Tónleikarnir vöktu mikla lukku á meðal samstarfsfólks Daða og hér má sjá örstutt myndskeið sem spyrill tók af einum þeirra fyrir nokkrum mánuðum.

Fyrrnefnt tvíeðli Daða birtist vel í viðfangsefnum hans hérna hjá Landsvirkjun. Hér er hann sérfræðingur á fjármálasviði og setur fram kassalaga langtímalíkön fyrir stjórn, framkvæmdastjórn, eigendur, lánshæfismatsfyrirtæki og banka. Hann reiknar líka út kostnaðarverð virkjana og gerir arðsemisútreikninga á rafmagnssamningum, auk þess að sinna hinum og þessum tilfallandi verkefnum sem koma upp, með þátttöku allra deilda og sviða fyrirtækisins. Hvernig stendur á þessu tvíeðli; að jafn listrænn og skapandi maður skuli líka vera með þá raunvísindahæfileika sem þarf til slíkra nákvæmisverka? „Ég hef oft velt þessu fyrir mér,“ segir hann. „Ég held að það hafi alltaf blundað í mér einhver praktísk þrjóska. Þótt maður hafi fundið sig rosalega vel í þessu frjálsa bóhemlífi fjölskyldunnar hefur manni kannski fundist vera ákveðin lausung í vissum málum, eins og t.a.m. fjárhagnum, sem sveiflaðist svolítið eftir verkefnastöðu og þar fram eftir götunum. Það var auðvitað sérstaklega skemmtilegt þegar vel gekk, en svo komu þurr tímabil, sem ég hafði eiginlega engan sérstakan áhuga á,“ segir hann og hlær. Má þá ekki segja að þú hafir gert ákveðna uppreisn, með öfugum formerkjum á við flesta aðra, að raunvísindin hafi þarna boðið listalífinu byrginn? „Jú, kannski má segja það. Þetta var líka kannski bara klassískur pönkari,“ segir hann og hlær.

Fyrir utan tónleikana með Sinfó hefur annar hápunktur píanóferilsins hjá Daða verið þegar hann spilaði Tilbrigði um stef eftir Paganini ásamt Árna Heiðari Karlssyni á 75 ára afmæli Halldórs Haraldssonar píanóleikara árið 2012 í Salnum í Kópavogi. „Bara svona á milli okkar var þetta þannig að Árni Heiðar bað mig um að gera þetta og ég var ansi tregur til, enda var ég ekki að spila mikið á þessum tíma. Árni sagði hins vegar við mig að þetta væri nú ekkert mikið mál, bara smá vinalegir tónleikar, bara svona svipað og þegar við vorum í náminu okkar, bara létt og skemmtilegt. Ég féllst því á þetta með semingi, en það var skammur tími til stefnu, bara tveir mánuðir. Ég hófst því handa við að æfa mig, tvo til þrjá tíma á dag með taktmæli. Þegar nær dregur sé ég að tónleikarnir verða í Salnum í Kópavogi, sem vekur ákveðnar áhyggjur, en Árni gerir aftur lítið úr þessu og segir að þetta verði bara náið og kósí. Þegar ég mæti svo á staðinn sé ég að salurinn er troðfullur, með öllum fremstu píanóleikurum og listamönnum landsins, sem eiga að koma fram á dagskránni sem er tveggja tíma löng – og við erum síðastir á efnisskránni. Sjónvarpið er mætt á staðinn og hátíðleikinn mikill. Ég fæ mér sæti og eftir því sem dagskránni líður fram verð ég taugaóstyrkari, enda kemur þarna fram hvern kanónan á fætur annarri. Að lokum er ég orðinn svo kaldur á höndunum að ég þarf að fara fram og í örvæntingu minni fylli ég tvær flöskur af heitu vatni til að handleika og fá hita í limina. En svo þegar við loksins komumst upp á svið er eins og ég fari í einhvers konar leiðslu. Einbeitingin er algjör og adrenalínið á fullu. Verkið er bara fimm mínútur, en það eru mjög langar fimm mínútur. Það var ótrúleg tilfinning þegar við komumst svo á endasprettinn og kláruðum,“ segir Daði og bætir við: „Ég verð Árna Heiðari vini mínum ævinlega þakklátur fyrir að hafa drifið mig með í þetta.“ Hér er upptaka af þessari mögnuðu frammistöðu.

Fréttasafn Prenta